138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:19]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er af mjög mörgu að taka í stjórnarsáttmálanum sem má nefna að væri sérstök ástæða til að taka út. Ég verð að segja eins og er að ég gæti séð fyrir mér samstarf með hv. þingmanni þar sem við tveir getum sest saman niður og farið yfir það versta og reynt að ná því út með þingmálum eins og þeim sem við höfum lagt saman, ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson ásamt öðrum, eða eins og við höfum gert hér. Við höfum margsinnis mótmælt ýmsu af því sem ríkisstjórnin stendur fyrir og hefur gert sem valdið hefur skaða. Við skulum taka sem dæmi, þótt ekki hafi sérstaklega verið kveðið á um það í stjórnarsáttmála, hvernig tekið hefur verið á orkusköttum og þeir hafa fælt frá erlenda fjárfesta úr landinu o.s.frv., hvernig skattamál ríkisstjórnarinnar hafa verið að þróast á undanförnum mánuðum. Listinn er nokkuð langur.

Aðalatriðið er að hér ræðum við málefni sjávarútvegsins. Þetta veldur alveg augljóslega skaða og hefur dregið úr fjárfestingu í greininni, þetta hefur valdið og skapað óvissu í grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga. Þess vegna leggja alþingismennirnir það til að þetta verði tekið út. Það sé síðan nefndin sem nálgist verkefni sitt á sama grundvelli og fyrstu fimm atriðin í stjórnarsáttmálanum, þar sem kveðið er á um endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins, með almennum opnum hætti en ekki með ákvörðun sem búið er að taka með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur gert með stefnuyfirlýsingu sinni, þar sem er sérstaklega kveðið á um þetta. Það eina sem eftir er er þá bara útfærsluatriði. Það sem skiptir þá máli hér, úr því að þessi stefnumótandi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar á að standa, er að nefndin sem skipuð er og hefur meiri hluta stjórnarflokkanna á bak við sig, hlýtur að að vinna í samræmi við það. Niðurstaðan liggur fyrir í upphafi og þá á einungis eftir að útfæra hana. Það er það sem við gerum athugasemdir við. Það verður ekki hægt að ná sátt um þá niðurstöðu sem þarna myndast ef leggja á upp með þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur illu heilli skrifað inn í stefnuyfirlýsingu sína.