138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á sömu forsendum og hv. þm. Illugi Gunnarsson telur hér upp, þ.e. að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar skaði umræðuna (Gripið fram í.) eða greinina, mundi öll umræða, ritað mál eða talað, eyðileggja alla umræðu hvar sem það væri. Á sömu forsendum má með ágætisrökum halda því fram að stefnuskrá stjórnmálaflokka á Alþingi, sem er væntanlega yfirlýst stefna þeirra sömu flokka, skaði svo alla umræðuna að hún eigi ekki að birtast neins staðar. Auðvitað er það ekki svo. Auðvitað er þingmönnum, stjórnmálaflokkum o.s.frv., þeim sem taka þátt í opinberri umræðu, skylt að geta um það hver þeirra stefna er svo þeim, sem taka til varna eða til andsvara, sé ljóst á hverjum tíma um hvað stefnan fjallar, um hvað á að ræða, þannig að þeir geti og hafi tækifæri til að móta sér skoðun og móta afstöðu sína í samræmi við það sem verið hefur í gangi í umræðunni.