138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:33]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Má ekki halda því fram með sömu rökum og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa notað í kvöld að sverð Damóklesar hangi yfir fyrir hverjar einustu kosningar? Væri þá ekki betra að sleppa því að halda alþingiskosningar á Íslandi vegna þeirrar óvissu sem það skapar fyrir fjöldann allan af atvinnugreinum? Hvers lags málflutningur er þetta sem við hlustum á hér í kvöld, þ.e. tillaga til þingsályktunar sem felur í sér að ríkisstjórnin framkvæmi ekki boðaða stefnu sem hún hefur verið sérstaklega kosin til að framkvæma? Það er með hreinum ólíkindum hvað mönnum er boðið upp á og það er sennilega til bóta að umræðan fer hér fram þegar langt er liðið fram á kvöld og fáir fylgjast með. Því miður verður þessu líklega sjónvarpað á morgun, almenningur getur þá fylgst með því hvernig þingmenn eyða tíma sínum á kvöldin í algjörlega fánýta umræðu. Af hverju kemur hv. þingmaður ekki með tillögu sem felur í sér að tillögur ungra sjálfstæðismanna í skattamálum komi aldrei til framkvæmda á Íslandi? Það væri nær.