138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ríkisstjórnin gæfi út slíka yfirlýsingu yrði örugglega ekki öllum fyrirtækjum forðað frá gjaldþroti. Við þekkjum það í gegnum tíðina að sjávarútvegsfyrirtæki eins og önnur fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota. En það er engin spurning að yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar af þessum toga mundi mjög greiða götu sjávarútvegsins. Það er engin spurning um að þetta er þegar farið að valda óvissu, það þekkja þeir sem starfa í þeirri grein. Sú óvissa lýtur ekki bara að fjármögnun fyrirtækjanna, hún lýtur líka að því að fyrirtækin sjálf eða forsvarsmenn þeirra eru hikandi við að takast á hendur fjárskuldbindingar vegna þess að þeir vita ekki hvort þeir geti staðið við slíkar fjárskuldbindingar af því þeim er ekki ljóst hvert rekstrarumhverfið verður. Það skiptir auðvitað miklu máli að vita hvort einhver fyrirsjáanleiki sé í þessari grein, það skiptir mjög miklu máli að vita hvort að standa eigi við yfirlýsinguna um fyrninguna. Ég lít þannig á að starf nefndarinnar sé m.a. að leiða þessi mál til lykta en það verður ekki gert ef búið er að setja mönnum fyrir með þeim hætti að niðurstaðan sé fundin fyrir fram.