138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[13:45]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að ræða stór orð stjórnarandstöðu sem hefur engu gleymt og ekkert lært, og taka undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar í ræðu sem hann flutti áðan.

Hugmyndafræðin var sú að virkja framtak einstaklingsins og draga úr afskiptum hins opinbera af atvinnulífinu, losa um hömlur, opna aðgengi að takmarkalausu lánsfé á milli landa. Ef fáeinir einstaklingar yrðu forríkir mundu allir njóta góðs af því.

Sjálfstæðisflokkurinn komst að þeirri niðurstöðu í byrjun þessa árs að þessi hugmyndafræði hefði ekki klikkað, bara fólkið sem átti að framkvæma hana. Er það svo? Er það staðreyndin? Er ekki allur Icesave-vandinn sprottinn upp úr þessari sömu hugmyndafræði? (Gripið fram í.) Þegar illa fór hjá hömlulausum einkaaðilum, Landsbankanum með sitt Icesave-ævintýri, (Gripið fram í.) lenti skellurinn af fullum þunga á ríkinu, á almenningi í landinu sem þurfti að greiða brauðmolana dýru verði þegar upp var staðið. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson getur örugglega kveðið sér hljóðs hér undir Störfum þingsins eins og aðrir þingmenn, ég bið hann um að bíða með frammíköll meðan ég er að tala. (Gripið fram í.)

Hvar er uppgjör Sjálfstæðisflokksins við íslenska efnahagsundrið (Gripið fram í.) sem þeir stærðu sig svo af vel og lengi, hvar er uppgjör Sjálfstæðisflokksins við það? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að fara í gegnum það uppgjör? Ætlar Framsóknarflokkurinn að gera það? (Gripið fram í: Ætlar Samfylkingin …?) Hér er hópur fólks á Alþingi Íslendinga sem bölvar öllum góðum fréttum. (Gripið fram í.) Þegar samdrátturinn verður minni en ætlað var, þegar atvinnuleysið er minna en ætlað var, þegar bjartari horfur eru fram undan líður þessu fólki illa. (JónG: Í hvaða veröld ert þú …?)