138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[13:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það hefur töluvert verið rætt um þessi mál og við höfum heyrt margar ræður eins og hv. þm. Róbert Marshall flutti hér áðan. En þær snerta ekki með nokkrum hætti efnisinnihald þessa máls. Frumvarpið sem við erum að vísa til hér felur í sér breytingar á fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í sumar. Það sem er viðfangsefni okkar nú er að greina hvort fyrirvararnir eru enn til staðar eða hvort þeir eru ekki enn til staðar. Mér sýnist við snöggan yfirlestur á nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að þar sé skautað yfir þessi atriði meira og minna. Það er vísað til almennra yfirlýsinga fjármálaráðherra sem ekkert lagagildi hafa. Lagalegir, skýrir fyrirvarar hafa verið felldir út eða sallaðir niður, brytjaðir niður, og í staðinn eru komnar almennar, loðnar, pólitískar yfirlýsingar.

Það er það sem við eigum að vera að ræða hérna vegna þess að málið snýst um hvernig hagsmuna Íslands í þessu máli er gætt núna. Það er það sem málið snýst um. Við verðum þess vegna að reyna að átta okkur á því, bara í þessari umræðu hér í dag, hvort fjárlaganefnd hafi tekist á við það verkefni sitt að greina hvað stendur eftir af þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti hér í sumar. Mér sýnist umfjöllunin í meirihlutaáliti fjárlaganefndar vera hálfköruð, svo maður líti þetta samt sem áður nokkuð jákvæðum augum, hún er mjög ófullburða. Það er auðvitað það sem verður rætt við 2. umr., hvernig farið hefur verið með þessa fyrirvara sem nú hafa ýmist verið felldir brott eða þynntir út þannig að ekkert hald er í þeim. Það er það sem við þurfum að tala um. Það er kjarni málsins á þessari stundu, (Forseti hringir.) hvað sem líður deilum okkar í fortíðinni.