138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[13:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru menn eðlilega að ræða af hverju þessi vinnubrögð eru viðhöfð í tengslum við þetta Icesave-mál. Allir sem hafa skoðað þetta mál komast að þeirri niðurstöðu að búið er að henda út fyrirvörunum sem samdir voru hér í sumar, meira og minna. Hér kemur stjórnarmeirihlutinn og talar eins og það sé bara eitthvert nagg í mönnum að vilja fara yfir þetta stóra hagsmunamál.

Það er að vísu líka búið að upplýsa það hér að hv. þm. Ögmundur Jónasson er búinn að lofa að vera þægur og stilltur og það verður fróðlegt að vita hvað hann fær í staðinn.

Út af orðum hv. þm. Róberts Marshalls held ég að það sé skylda okkar þingmanna að fara fram á opinbera rannsókn og það sem allra fyrst. Rannsóknarefnið er eðlilega: Hverjir voru með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn 2007–2009. Það verður að kanna þetta. (Gripið fram í.) Það er alveg útilokað að hafa þetta svona áfram (Gripið fram í.) og það verður hreinlega að krefjast svara. Ég var í þessari ríkisstjórn og ég stóð í þeirri meiningu að Samfylkingin hefði verið þarna. Virðulegi forseti. Ég sá fullt af fólki sem er núna í ráðherrastólum, það var á fundum með okkur reglulega. Þetta fólk kannast hins vegar bara ekkert við þessa dvöl og það verður að rannsaka þetta (Gripið fram í.) og komast að einhverri niðurstöðu. (Gripið fram í.) Þetta fólk sem var þarna varaði aldrei við neinni kreppu eða hruni, aldrei nokkurn tíma. Reyndar var það þannig að þetta fólk, ásamt fullt af fólki sem er hér í salnum, oft með samfylkingarmerki, gekk um fyrir kosningar og sagði: Góðærið er EES-samningnum að þakka. En núna erum við reyndar að vinna í Icesave-málinu út af þeim ágæta samningi. (Gripið fram í: Rétt.)