138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[14:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hafa verið notuð ýmis orð um að við skyldum taka Icesave-málið úr fjárlaganefnd í gær, allt frá því að kalla það sýndarmennsku og leikrit, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði, yfir í að kalla það vanvirðingu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kallaði. Við fengum álit frá efnahags- og skattanefnd í hádeginu í gær, fjögur ólík álit. Að sjálfsögðu hef ég lesið þau og það sem fylgir álitinu sem kemur fram frá meiri hluta fjárlaganefndar er að öll þessi álit eru lögð fram með málinu inn í 2. umr. og þau eru þar með komin á borð allra þingmanna til umfjöllunar í 2. umr. þar sem þingheimur, hver og einn þingmaður, tekur afstöðu. Við lásum að sjálfsögðu þetta álit og komumst að þeirri niðurstöðu að það kallar ekki fram neinar breytingar hjá þeim meiri hluta sem tók afstöðu. Það var ekkert í þessu nefndaráliti sem breytti þeirri skoðun minni eða þeirra sem þar tóku afstöðu og það verða menn að meta. Í þessu felst ekki lítilsvirðing, ég gaf mér tíma til að lesa þetta þótt ekki hafi liðið nema átta tímar frá því að álitinu var dreift í fjárlaganefnd þar til málið var tekið úr nefnd.

Það var eiginlega búið að fjalla um öll þau atriði sem þarna voru vegna þess að við vorum með fulltrúa frá Seðlabankanum hjá fjárlaganefnd til að skýra þau út fyrir okkur. Þau sjónarmið sem þarna komu fram hafa mörg hver komið fram í ræðustóli vegna þess að einhverra hluta vegna ræða menn í störfum þingsins Icesave-mál sem verið er að leggja inn og á að fara í 2. umr. einhvern tíma seinna í vikunni eða í byrjun næstu viku. Þar á málefnaleg umræða að fara fram, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti réttilega á. Ég held að menn eigi líka að hætta því sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, að halda að maður geti notað einhvern töfrahatt hvað þetta varðar, að trúa því að með því að ýta málinu frá sér hverfi það. Það er því miður ekki þannig. Við höfum margoft tekið þá umræðu. Það er engin patentlausn á þessu Icesave-máli. Það er hægt að vísa því frá en menn tala alltaf eins og þetta sé mál sem hverfur við að ýta því í burtu og það eru býsna margir þingmenn sem hafa reynt að nota þessar barbabrellur í umræðunni. (Forseti hringir.) Við ætlum að axla þessa ábyrgð og við munum alveg í hvaða ríkisstjórn við vorum þó að sumir geri það ekki.