138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

skipulag þingstarfa.

[14:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég veit að það eru mjög margir þingmenn hérna inni sem hefðu viljað tjá sig við þessa umræðu. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort hún muni ekki beita sér fyrir því að þessi liður verði lengdur, sérstaklega þegar um jafnstór og mikilvæg mál er að ræða og Icesave-frumvarpið.

Ég nefndi það að á fjárlaganefndarfundi í gær hefði á engan hátt verið fjallað efnislega um frumvarpið. Það er rétt að hv. varaformaður Björn Valur Gíslason opnaði munninn til þess eins að segja okkur að málið hefði verið rætt. En efnislega var málið ekki rætt þótt ég kallaði eftir því. Ef eina leiðin (Forseti hringir.) til að fá efnislega umræðu í Alþingi er undir þessum lið, verðum við að lengja hann, frú forseti.