138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka tækifærið til að fá að ræða sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu sem eru mýmörg. Mig langar til að byrja á því að nefna þjóðfundinn sem hér var haldinn á laugardaginn var þar sem dregin var upp framtíðarsýn fyrir íslenska þjóð, m.a. á sviði heilbrigðis- og velferðarmála. Í upphafi máls míns langar mig að nefna tvö af nokkuð mörgum dæmum um þær væntingar eða þá framtíðarsýn sem þjóðfundargestir drógu upp í þessum málaflokkum.

Þá er fyrst til að taka þessa góðu setningu hér: „Góð heilbrigðisþjónusta og samfélagsleg velferð sem byggir á aðgengi fyrir alla aldurshópa og býr framtíðarkynslóðum góð lífsskilyrði.“ Þetta eru skilaboð þjóðfundar til okkar á Alþingi.

Annað sem ég vil koma inn í umræðuna og snertir sóknarfærin er þessi setning: „Jafnrétti til góðrar heilbrigðisþjónustu með áherslu á almenna lýðheilsu, jafnframt því sem heilbrigðiskerfið nýtist til atvinnuuppbyggingar og öflunar útflutningstekna.“

Það var merkilegt að fá að vera með á þessum þjóðfundi á laugardaginn og væri margt hægt um það að segja. Íslenska heilbrigðiskerfið uppfyllir þegar margar af þeim væntingum sem þjóðfundargestir gera til þess. Við þekkjum mælikvarðana. Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði stenst íslensk heilbrigðisþjónusta fyllilega samanburð við önnur lönd, lífslíkur og ungbarnadauði, vel menntað starfsfólk, aðgengi tiltölulega jafnt að þjónustunni o.s.frv. Þetta þekkjum við allt saman. Nýlega hefur verið staðfest að Ísland lendir í 3. sæti, næst á eftir Hollandi og Danmörku, með tilliti til árangurs og gæðaviðmiða við mat á heilbrigðisþjónustu 33 Evrópuríkja. Heilbrigðisþjónustan okkar er því sem betur fer enn þá í fararbroddi meðal þjóða.

Ótal tækifæri og möguleikar birtast á heilbrigðistæknisviði. Hér eru að mörgu leyti kjöraðstæður til rannsókna og þróunar og saman eru þessir möguleikar og góð þekking og undirstöðumenntun auðlind sem við eigum að nýta okkur til hins ýtrasta. Það er mikilvægt að vinna skipulega að áætlun um eflingu og uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu á Íslandi því að þar býður íslensk heilbrigðisþjónusta upp á mörg tækifæri og þar er virkilega mikið að gerast.

Mig langar til að minna á að 6. nóvember sl. komust færri að en vildu á hátækni- og sprotaþingi. Það ríkti engin kreppa í hugarfari stjórnenda þessara fyrirtækja, heldur trú á bjarta framtíð á Íslandi, einnig á sviði heilbrigðisþjónustu. Nýlega var opnaður Heilsutæknigarðurinn KÍM þar sem eru 12 fyrirtæki með um 40 starfsmönnum þar sem bæði er um að ræða framleiðslu úr íslenskum jurtum og smíði og þróun flókinna rannsóknartækja.

Ég hef staldrað aðeins við, frú forseti, sóknarfærin sem eru í íslenskri heilbrigðisþjónustu hér innan lands á sviði rannsókna og nýsköpunar, en ég hlýt einnig að nefna lækningatengda ferðaþjónustu. Við þekkjum öll hugtakið „heilsutengd ferðaþjónusta“ sem m.a. iðnaðarráðuneytið hefur unnið ötullega að stefnumótun í og ég verð að segja að það er fullur hugur í heilbrigðisráðuneytinu til að vinna ötullega að þeirri hlið sem snýr að lækningatengdri ferðaþjónustu. Ég hef ákveðið að setja á laggirnar nefnd sem hefur það hlutverk að vinna tillögur um stuðning eða hlutverk hins opinbera í lækningatengdri ferðaþjónustu sem er þá sambærileg við þá nefnd sem ég nefndi áðan, þá sem vinnur á vegum iðnaðarráðuneytisins. Þar munum við byggja m.a. á skýrslunni Heilsa og hagsæld með nýsköpun sem er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Ég vænti mikils árangurs af því.

Frú forseti. Eins og vant er reynist þessi tími ansi stuttur. Ég veit að ég á aðra ræðu eftir og þá mun ég svara þeim spurningum (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður beindi til mín. Já, það er von að hann spyrji hvernig hann eigi þá að svara því. (Forseti hringir.) Ég treysti því að hann hafi margt til málanna að leggja og virði mér það til vorkunnar að ég komst ekki lengra í fyrri ræðu minni. Við lærum af því og óskum eftir tvöföldum umræðutíma um heilbrigðismálin næst.