138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:36]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir vil ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka upp þetta mál, líta á heilbrigðisþjónustuna frá öðrum sjónarhóli en bara út frá þjónustu við sjúka og í forvarnaskyni. Það er vert að líta líka á heilbrigðisþjónustuna sem mikilvæga atvinnugrein og atvinnuskapandi fyrir fjölda manns. Það er nokkuð sem ég tel að við eigum núna, í þeim efnahagsþrengingum sem við búum við, að hafa sem sjónarhorn líka.

Fyrst og fremst viljum við í þeim miklu erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir verja velferðarþjónustuna, þjónustu við sjúklinga. Það er einmitt það sem við ætlum að gera, standa vörð um velferð fólks, en við ætlum líka að verja störfin. Þess vegna er svo mikilvægt að við horfum á þessi sóknartækifæri núna til að skapa ný störf. Við getum gert það á svo mörgum sviðum, við getum notað þetta sem tækifæri til gjaldeyrisöflunar og það innan heilbrigðisþjónustunnar. Það er ímynd Íslands, sérstaklega hreinleiki, náttúrufegurð, tækniþekking og gott menntunarstig sem vinnur með okkur í markaðssetningu á þjónustu og framleiðslu á heilbrigðissviði.

Það eru sóknarfæri á heilbrigðissviði eins og öðrum sviðum. Það er mikilvægt að leyfa fjölbreytileikanum að njóta sín, setja ekki öll eggin í sömu körfuna eins og okkur hefur hætt til á öðrum sviðum. Ég tel mjög mikilvægt að stjórnvöld marki sér stefnu á þessu sviði og varði sóknartækifærin til lengri tíma litið. Heilsutengd ferðaþjónusta getur orðið arðvænleg atvinnugrein ef vel og faglega er að verki staðið. Víða um land geta heilbrigðisstofnanir verið sterkur liður í slíkri uppbyggingu, fengið nýtt og viðameira hlutverk en þær hafa í dag og styrkt með því rekstrargrunn og svæðisbundna þjónustu. Sem dæmi um slíka stofnun get ég nefnt Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (Forseti hringir.) sem að mínu mati hefur mikla möguleika innan heilsutengdrar ferðaþjónustu og er það bara dæmi, (Forseti hringir.) en lækningatengd ferðaþjónusta er líka hugtak sem við eigum að horfa til hvað varðar ný sóknarfæri.