138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:41]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. heilbrigðisráðherra að hún styðji hugmyndir um lækningatengda ferðaþjónustu og hafi nú skipað nefnd þar um. Það rímar við það sem hefur verið að gerast í ferðaþjónustunni með heilsutengda ferðaþjónustu og í raun ættu þessir tveir þættir að geta unnið saman og styrkt hvor annan. Þótt auðvitað sé ekki um sama hlutinn að ræða held ég samt að í ímyndarfræðunum gæti þetta hjálpað hvort öðru.

Það skiptir líka mjög miklu máli í þessu samhengi að ræða um þá miklu nýsköpun sem nú fer fram í litlum, nýjum, íslenskum sprotafyrirtækjum sem byggir auðvitað á þeirri þekkingu og þeirri menntun sem Íslendingar hafa fengið á sviði heilbrigðisvísinda. Sú uppbygging mun örugglega færa okkur miklar útflutningstekjur, kannski ekki á næstu missirum en þegar fram í sækir, ég er viss um það. Þar nýtum við líka hið séríslenska, eins og t.d. íslenskar jurtir, og byggjum þar á gamalli hefð grasalækninga eins og allir vita. Í kjarna sínum fjallar þetta mál hins vegar um það sem hæstv. ráðherra hafði eftir sem setningu frá þjóðfundinum, um að nýta heilbrigðiskerfið til atvinnuuppbyggingar og öflunar útflutningstekna. Það er það sem hér er verið að ræða og það er það sem mér heyrist að allir sem tekið hafa til máls í þessari umræðu séu sammála um að við eigum að gera. Auðvitað þarf að gera það fagmannlega og með yfirsýn yfir það sem er að gerast og það verður að verða viðbót við það sem við erum að gera hér heima. Það má aldrei bitna á því sem fyrir er eða þeirri þjónustu sem þegar er veitt.