138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[14:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri óskandi að ráðherrar ríkisstjórnarinnar mundu vera svo ákafir í að gera hér tillögur að lagabreytingum eins og hæstv. fjármálaráðherra fer fram með nú í þessu frumvarpi. Kjararáð er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og hún starfar eftir lögum um kjararáð og eftir stjórnsýslulögum. Ráðið hefur það hlutverk að fylgjast með þróun á launamarkaði og gera tillögur að launum til þeirra aðila sem undir ráðið falla, þar undir eru t.d. alþingismenn, ráðherrar og dómarar. Nú var lögunum breytt fyrir síðustu áramót þar sem var sett inn ákvæði til bráðabirgða nr. II í lögum um kjararáð. Þar var þessi lækkun skilgreind og skyldu þau lög sem framkvæmdarvaldið fór fram á að kjararáð mundi lækka hér lög ákveðinna aðila í þjóðfélaginu. Það setti með öðrum orðum lög á sjálfskipaða stjórnsýslunefnd og að sá úrskurður skyldi gilda til ársloka 2009. Það var lækkun um 5–15% á laun þeirra aðila sem undir kjararáð falla. Varð kjararáð að verða við þessari beiðni þar sem Alþingi samþykkti lög þess efnis.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna hann leggur hér fram frumvarp til laga um að binda þetta ákvæði enn frekar í lög til 1. janúar 2010 þar sem engin launaþróun hefur verið á þessu tímabili og kjararáð því ekki líklegt til að hreyfa sig til hækkunar á launum þessara aðila.