138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo hæstv. fjármálaráðherra viti það nú er ég frekar glaðlynd manneskja (Fjmrh.: Ég heyri það nú.) þannig að hann þarf ekkert að hvetja mig til dáða í því að halda gleði minni. Ég held henni alltaf, þannig að það sé nú á hreinu.

Varðandi þau orð sem sögð voru í ræðustól, er það skylda okkar þingmanna fyrst og fremst að segja sannleikann. Það eru til lög um ráðherraábyrgð sem taka á því ef t.d. ráðherra segir ekki sannleikann hér í ræðustól sé hann spurður, þannig að hæstv. fjármálaráðherra skal nú aðeins athuga að í þessum stól er bara notað það orðfæri og það tjáningarfrelsi sem ríkir í landinu alveg eins og fyrir utan þetta hús.

Það má vel vera að hæstv. fjármálaráðherra líki ekki þetta orðbragð en þetta er það orðbragð sem ég nota af því að ég sé hvað hlutirnir eru hér í alvarlegum farvegi. Hér er talað um eins og það sé ekkert mál að fólk flytjist í stórum stíl af landinu. Hvar ætlar hæstv. fjármálaráðherra þá að ná í þær skatttekjur sem ríkissjóður tapar af þegar skattarnir eru hér komnir til fullra framkvæmda? Við skulum átta okkur á því að þótt fjármálaráðherra vilji hafa veruleikann annan en hann er getur hann ekki breytt honum. Þannig er staðan núna. Það er margt fólk sem íhugar að fara héðan og mér finnst alveg ótrúlega sorglegt ef þannig er komið fyrir okkur sem þjóð að fólk vilji ekki búa hér með okkur á þessari annars fallegu eyju þar sem drýpur gull af hverju strái ef við bara notuðum þau tækifæri sem okkur eru búin hér, þótt það væri ekki annað en að gera fólki auðveldara fyrir og afskrifa 20–30% af lánum þess.

En það sem lagt er fram í þessu frumvarpi, svo ég dragi þetta saman, er þetta: Kjararáði er óheimilt að breyta launum þeirra aðila (Forseti hringir.) sem undir það heyra samkvæmt lögum til ársins 2010, þrátt fyrir að engin vísbending (Forseti hringir.) sé um að launaþróun hér sé að breytast í átt til hækkunar.