138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Strax þegar ég var strákur var ég þeirrar náttúru að ég sá ekkert í myrkri og það var kallað náttblinda. Ég hef hins vegar núna á síðustu mánuðum í þinginu kynnst öðru hlutskipti sem virðist vera einhvern veginn þannig að fólk sé algjörlega ófært um að sjá nokkurt ljós. Ég vil, líkt og hæstv. fjármálaráðherra, hvetja þingmenn til þess við þær aðstæður sem við störfum í að gæta nokkurs hófs í málflutningi sínum og draga ekki upp svo einhliða mynd af þeim veruleika sem við er að fást. Auðvitað er það svo að hér hefur margt illa farið en það er líka þannig að hér eru mörg vonarljós og margt sem hefur farið betur en við hugðum þegar upp var lagt í þennan leiðangur. Og það er mikilvægt vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem margar fjölskyldur eru í í landinu og ekki síst núna þegar við erum að sigla inn í svartasta skammdegið að við í okkar orðræðu reynum aðeins að gæta hófs í þeim myndum sem við erum að draga upp af þeim veruleika sem fólk er að fást við. Það er bara sagt hér í fullri vinsemd og af fullri virðingu við umræðuna þó að mér þyki kannski að það megi orðið rífa sig upp í garra yfir nánast hverju sem er ef þetta litla mál sem hér er flutt af hæstv. fjármálaráðherra er orðið efni mikilla skoðanaskipta. Það var flutt hér og varð að lögum við aðstæður sem, eins og komið hefur fram hjá þeim sem rætt hafa málið, hafa í sjálfu sér ekkert breyst. Þær aðstæður eru einfaldlega enn þá fyrir hendi og þess vegna ástæða til að framlengja gildi laganna og er ekkert verið að grípa fram fyrir hendurnar á kjararáði hvað það varðar, heldur einfaldlega verið að framlengja það ástand sem núna er og langtum verra ef þingið réðist í það að bregðast við einhverjum ákvörðunum sem kjararáð kynni að taka. Við hljótum öll að vera sammála um að slíkar ákvarðanir hljóta að vera tiltölulega ólíklegar í ljósi þeirrar miklu kaupmáttarrýrnunar sem við gerum ráð fyrir að hér verði á næsta ári. Málið verður tekið til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd þingsins og ég hef heyrt þá ósk koma fram hjá þingmanni að það verði m.a. sent til umsagnar til kjararáðs og það þarf enga milligöngu um það, það er sjálfsagt að verða við því eða kalla eftir þeim álitum og þeir kallaðir til umfjöllunar um málið fyrir nefndinni sem til þess geta gott lagt eða sjónarmið fram sett áður en það kemur inn til 2. umr. Þessi umræða hefur þó gefið tilefni til þess að huga líka að nokkrum öðrum atriðum sem lúta að kjararáði og voru hér á dagskrá fyrr í ár og er auðvitað kominn tími til að setja aftur á dagskrá.