138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég treysti því að hv. þingmaður sé ekki að finna að því þó að dregnir séu fram í skjölum í þinginu ýmsir þeir þættir sem þróast hafa með heldur jákvæðari hætti en við hugðum hér strax í kjölfar hrunsins og þar er auðvitað af mörgu að taka, bæði minni samdrætti í landsframleiðslu en menn ráðgerðu, minna atvinnuleysi en menn ráðgerðu, að mörgu leyti hagfelldari erlendri stöðu þjóðarbúsins o.s.frv. Auðvitað eigum við að draga það fram og auðvitað eigum við að lyfta því um leið og við horfumst í augu við þá erfiðleika sem engu að síður er við að etja, enda eru þeir nægir þó að við reynum bara svona af meðalhófi og málefnalega að leggja mat á stöðu okkar. Við þurfum ekkert að ýkja erfiðleika okkar, verkefnin eru alveg næg þó að við reynum að horfa líka á hið jákvæða í stöðunni.

Hvað varðar inngrip í störf kjararáðs má út af fyrir sig taka undir það með hv. þingmanni að það er eitthvað sem menn eiga að gera eins lítið af og mögulegt er. Það er auðvitað best að gera það áður en kjararáð grípur til einhverra aðgerða, þannig að það sé ekki verið að bregðast við áformum ráðsins. Við hljótum auðvitað líka að hafa í huga að við erum núna að starfa við algerlega einstæðar aðstæður og á okkur hvílir rík skylda að standa vörð um friðinn í samfélaginu. Ég held að það sé alveg klárt að það að taka af öll tvímæli í þessu efni sé hluti af því að rækja þá skyldu okkar að tryggja það að hér verði ekki, eins og stundum hefur gerst, teknar óheppilegar ákvarðanir um kjör okkar sem verða til þess að kveikja elda í samfélaginu, og það sé bara sjálfsagt í raun og veru forvarnastarf að framlengja þessu meðan þetta sérstaka ástand er í samfélaginu, þó að alla jafna og við eðlilegar aðstæður eigum við ekki að þurfa að grípa til svona hluta.