138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hérna ákveðið vandamál sem þingmenn standa iðulega frammi fyrir og það er að ákvarða laun þingmanna. Það hefur alltaf verið vandræðamál, alveg síðan ég man eftir mér. Menn fólu þetta Kjaradómi en ríkisstjórninni líkaði það ekki og nú er búið að taka starf hans úr sambandi þannig í rauninni er það Alþingi sem ákveður laun þingmanna.

Þegar þjóðin mannar þá skútu sem Alþingi er ætti hún að huga að launum og kjörum þingmanna vegna þess að þar ætti að vera hið besta mannval. Nú er spurning hversu mikið laun hafa að segja í sambandi við hvata manna til að vinna eða taka að sér störf. Sumir hafa ofurtrú á launum og þau ofurlaun sem hafa verið í gangi á verðbréfamarkaðnum sýna þá ofurtrú. Aðrir hafa mjög litla trú á því hlutverki launa að hvetja menn til dáða og vilja helst hafa öll laun eins. Ég hugsa að meðalvegurinn sé einhvers staðar þarna á milli. Fólk þarf laun, bæði til að lifa og eins til hvatningar. Ef laun eru lækkuð mjög mikið og allir hafa sömu laun leggja menn ekkert sérstakt á sig, þá vinna þeir bara það sem nauðsynlegt er og ekkert þar að auki. Það er örugglega eitthvert samband þar á milli.

Ég vil benda á varðandi t.d. laun þingmanna að hér er ekki greitt fyrir menntun eða reynslu. Allir þingmenn fá sömu laun, óháð því hvort þeir hafa menntun eða reynslu. Þetta er ákvörðun sem menn hafa tekið. Í öðrum störfum, hjá dómurum og annars staðar, er gerð krafa um menntun og þá vilja menn alltaf fá hana greidda að einhverju leyti. Við erum nú að taka ákvörðun um að halda þeim launum niðri eins og hægt er. Það er líka ákveðin stefna að gefa slíkt merki út í þjóðfélagið, að nú sé hart í ári og þá þurfi áhöfnin á skútunni að lækka launin sín.

Síðan komum við að öðru máli sem er öllu alvarlegra. Þingmenn taka nú ákvarðanir um mjög stór mál og af því að menn hafa talað svo oft um Icesave ætla ég að leyfa mér að gera það einu sinni enn. T.d. er verið að taka ákvörðun um vexti. Af hverju 5,55%? Af hverju ekki 4%, 7%, 10% eða 1%? Hvernig duttum við niður á þessa tölu? Hvaða snillingur var það sem samdi þessa tölu? Hvaðan kom hann og af hverju hafa þingmenn ekki gert athugasemd við þetta? Þessi tala, 5,55%, frú forseti, kostar Íslendinga 100 milljónir á dag. Við, hv. þingmenn, tökum ákvörðun um þetta, við sem erum núna að lækka launin okkar.

Ég held að þjóðin, sem útgerðarmaður skútunnar, ætti virkilega að skoða hvort það sé skynsamlegt að hafa hlutinn svona lágan en það yrði mjög vitlaust að gera það á miðju kjörtímabili. Ég hef lagt til að þingið eða einhver aðili ákveði laun frá og með næsta kjörtímabili. Ef launin verða mjög há missi ég sætið mitt, ef þau verða mjög lág held ég sætinu mínu. Ef þau verða mjög há lokka þau að fólk með reynslu, menntun og þekkingu, úr atvinnulífinu, bönkunum, stjórnsýslunni og alls staðar að, til þess að bjóða sig fram til þings og hugsanlega fengjum við þá mannval sem gæti ákveðið að vextirnir yrðu 5% í staðinn fyrir 5,55%. Þar munar 10–20 millj. kr. á dag. Við fjöllum þessa dagana um mjög stór mál og mér finnst dálítið ankannalegt að á sama tíma gera menn allt sem þeir geta til að halda launum þingmanna niðri sem og annarra í stjórnsýslunni.

Sumir hafa sagt að vandamálið í haust hafi verið vandamál stjórnsýslunnar, hún hafi brugðist. Hvað eru menn nú að gera? Lækka launin hennar frekar, passa að þangað inn fari ekki of mikið afburðafólk. Ég held þetta sé dálítið hættuleg þróun, frú forseti, fyrir utan að þingmenn þurfa að fara í prófkjör og það kostar mikið. Hvergi er talað um að þeir sem borga prófkjörin sjálfir eru kannski launalausir í einhverja mánuði. Þeir sem ekki borga prófkjörin sjálfir eru þá skuldbundnir einhverjum. Mikið hefur verið rætt um það en ekki hinn þáttinn, um þá sem borga prófkjörin sín sjálfir og eru launalausir einhverja mánuði eða hálfu eða heilu árin eftir að þeir eru kosnir á þing.

Ég held að menn ættu að gæta sín á þessu. Ég ætla ekki að greiða atkvæði gegn þessu eða vera á móti þessu en vildi gjarnan benda á að á sama tíma og vantrú manna á stjórnsýslunni, Alþingi og þessu kerfi öllu saman er mjög mikil fara menn fram og lækka launin til þess að koma í veg fyrir mikinn atgervisflótta.