138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir hans framsögu. Ég kvað heldur ekki upp úr með að ég væri á móti þessu en það er hlutverk okkar þingmanna að benda á það sem betur má fara í lagasetningu og til þess erum við hér. Þar sem hv. þingmaður er mjög talnaglöggur langar mig til að spyrja hann sömu spurningar og ég spurði hv. þingmann áðan og vitna í dóm héraðsdóms nr. E-1939–2006. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 er rakið að áskilnaður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um óháða dómstóla feli í sér að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og „ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins“. Er skírskotað til þess að „kjör sem dómendum eru tryggð“ séu einn af efnisþáttum í mati á hvort dómstólarnir teljist sjálfstæðir þannig að fullnægt sé kröfum stjórnarskrárinnar.“

Nú grípur löggjöfin enn á ný inn í laun þeirra aðila sem kjararáð á að ákvarða. Kjararáð er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem á að hafa úrskurðarvald í málum og úrskurðum hennar er ekki hægt að áfrýja. Telur hv. þingmaður ekki að þarna sé verið að binda hendur kjararáðs jafnvel til rýrnunar launa dómenda sem starfa bæði í héraðsdómi og í Hæstarétti í því mikla álagi sem nú liggur fyrir dómstólum landsins eftir hrunið? Er ekki óeðlilegt að hér sé komið fram frumvarp á Alþingi þar sem hendur kjararáðs eru bundnar með þessum hætti til ársloka 2010?