138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er áhugaverð umræða í sjálfu sér sem við höfum stundum áður tekið hér, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, um hvort há laun, svo ekki sé talað um ofurlaun, séu endilega besta tryggingin fyrir því að draga að hæft starfsfólk og/eða tryggja að þeir sem ábyrgð bera í störfum standi undir henni.

Mér finnst þessi umræða nú öll vera í miklu návígi við dapurlega atburði sem ættu að kenna okkur eitthvað. Ekki vantaði ofurlaunin í bankakerfinu og ekki vantaði heldur að aðalréttlætingin fyrir gríðarlegum kaupaukum og háum launum væri einmitt að menn bæru svo mikla ábyrgð og sýsluðu með svo mikla fjármuni. Hvernig fór það? Reyndist það að hæfasta fólkið hefði valist til starfa mikil trygging fyrir því að gæðin sætu í fyrirrúmi? Ég trúi því ekki. Ég hef enga trú á öðru en það séu til margir hæfari bankamenn en þeir sem fóru að ráði sínu eins og raun ber vitni í íslenska hruninu.

Ég er líka þeirrar skoðunar að almennt bjóði fólk sig ekki fram til Alþingis vegna launanna eða til þess að komast í hærri laun en því ella stæðu til boða. Ég held að það sé alveg þveröfugt. Ég held að menn bjóði sig fram vegna þess að þeir telji sig hafa eitthvað annað fram að færa, þeir hafi hugsjónir sem þeir vilja berjast fyrir, telji sig geta látið gott af sér leiða og þar fram eftir götunum. Enda held ég einmitt að við þurfum ekki það fólk inn á Alþingi sem væri líklegt til að bjóða sig fram vegna launanna, þótt þau væru há. Við þurfum ekki það hugarfar. Má ég minna á allt það góða fólk sem þúsundum og tugþúsundum saman vinnur af stakri samviskusemi mikilvæg störf í þessu þjóðfélagi fyrir lág laun. Við trúum sumu þessu fólki fyrir því dýrmætasta sem við eigum, börnunum okkar, fötluðum, sjúkum og öldruðum. (Forseti hringir.)