138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða þetta mál mjög vel. Eins og fram hefur komið þá er ekki bara búið að setja 18 millj. kr. í þetta verkefni — sem er að vísu mjög lág upphæð miðað við stærð þess og þá vísa ég til þess að flestar þær þjóðir sem hafa tekið þetta heildstætt hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé sparnaður í því að fara heildstætt í svona verkefni og koma fram með heildstætt kerfi. Af því að þetta er ekki bara óréttlæti sem kemur fram á ýmsum sviðum, því þessi 17%, 18% eða 16% síðast þegar ég sá, kostnaðarhlutdeild sjúklinga, falla á allan hátt, þetta er allt frá því að menn greiði ekkert til þess að menn greiði nokkur hundruð þúsund krónur fyrir læknisþjónustu. Hugmyndin með því að fara í breytt kostnaðarþátttökukerfi er sú að langveikir og þeir sem þurfa mest á þjónustunni að halda greiði sem minnst, en hins vegar liggur það fyrir að þetta mun gera það að verkum að við hin sem erum heppin og þurfum sjaldan á þjónustu að halda þurfum kannski að greiða eitthvað meira.

Þetta fyrirkomulag, þ.e. að afnema afslættina hjá smásölunum, það var bara einn liður í þessu. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, þá er hann ekki að ýta þessu út af borðinu, en það væri þá ágætt að vita hvernig hann hyggst vinna þetta áfram með kostnaðarþátttökukerfið vegna þess að þetta er flókið, þetta er mikið mál og það var reynt að vinna þetta með aðilum úr öllum flokkum og þetta var komið á ákveðinn rekspöl. Aðalatriðið er ekki hvernig þetta er gert, heldur að þetta verði gert. Ég vil þá kannski heyra um fyrirætlanir hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.