138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í sjálfu sér sammála hv. þingmanni um flest sem hún fór yfir áðan. Það getur vel verið að skynsamlegt sé og það hefur mikið verið rætt, sú niðurstaða að menn vildu taka bæði lækniskostnaðinn og lyfjakostnaðinn. Upphaflega fóru menn bara af stað með lyfjakostnaðinn. Ég geri engan ágreining um að það gæti verið skynsamlegt að klára það en þá væri heldur ekki skynsamlegt af okkur að taka það út úr lögunum. Við verðum að líta á þetta í stærra samhengi.

Varðandi vinnuna liggur fyrir að við erum ekki enn þá búin að fá kynningu á útreikningunum sem búið er að reikna t.d. varðandi fjárlögin og skipulagsbreytingarnar. Við í heilbrigðisnefnd verðum að fara eðli málsins samkvæmt yfir það og ég efast ekki um að hv. þingmaður og formaður nefndarinnar muni gera það.

Hjúkrunarheimilin er annar þáttur. Við erum ekki einu sinni að færa þetta til sveitarfélaganna núna, það á að færa þetta yfir til ráðuneytis sem hefur í rauninni ekkert með sveitarstjórnarmálin að gera lengur. Félagsmálaráðuneytið hefur ekkert með sveitarstjórnarmálin að gera, það er búið að færa þau yfir í samgönguráðuneytið. Þetta er gríðarlega stór tilflutningur. Hjúkrunarheimilin eru heilbrigðisþjónusta að langstærstum hluta og mikið af starfseminni er inni á spítölum, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég held að flestir hafi séð hagræðingarmöguleikana í því, svo ég nefni eitt dæmi af því að ég sé hv. þingmann Suðurkjördæmis, þá benti forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á að það gæti verið hagkvæmt að sú stofnun tæki yfir hjúkrunarheimilin þar á svæðinu. Það er gott dæmi um hvernig menn geta hagrætt án þess að það komi niður á þjónustunni. Þetta er allt saman eftir og allt undir og það eru sárafáir dagar þangað til við ætlum að vera búin hér á þingi.