138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi orð. Það er rétt sem hann segir að það er ekkert nýtt undir nálinni hér. Þessi verk sem ég var að lýsa hafa verið og eru í forgrunni í vinnu í heilbrigðisráðuneytinu og hafa verið á verkefnalista ráðherra, ekki aðeins frá tíð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heldur einnig fyrir hans tíð, og verða væntanlega eftir að nýr ráðherra tekur við af þeirri sem hér stendur vegna þess að þetta eru mikilvæg mál og þau taka langan tíma.

Við erum í reynd komin aftur í utandagskrárumræðurnar frá í dag. Við erum farin að tala um samstarfið við nágranna okkar á Norðurlöndum og það er vel. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði að sá árangur sem stefnt var að með afsláttarfrumvarpinu á sínum tíma hefur náðst án þess að afslættir yfir borðið hafi verið bannaðir. Mér er gersamlega fyrirmunað að skilja hvernig það má vera — ef félag eins og Hjartavernd hefur samið við apótekara í landinu um að fá 10–15% afslátt af lyfjum til sinna félagsmanna en það er bannað með lögum sem eiga að óbreyttu að taka gildi 1. janúar nk., hvað gerist þá? Lyfin hækka. Til að koma í veg fyrir það, frú forseti, er þetta frumvarp flutt.