138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:21]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi Skaftárhrepp er það rétt sem þingmaðurinn nefnir að niðurstaða hefur ekki náðst í þær viðræður en þær standa yfir. Fulltrúar Landgræðslunnar, ráðuneytisins, Veðurstofunnar að því er varðar áburð og landrof, og jafnframt fulltrúar Vatnajökulsþjóðgarðs hafa komið að þessu samráði. Þarna er hverfisvernd í gildi yfir svæðið og raunar stærra svæði en rætt er um í friðlýsingaráformunum þannig að ég hef væntingar til þess að menn geti mæst þarna.

Menn hafa náttúrlega ákveðnar áhyggjur af umhverfinu þarna, framburði áa o.s.frv., sem eru eðlilegar. Ég held að ef einhverjir Íslendingar eru meðvitaðir um sambúðina við náttúru Íslands séu það íbúar í Skaftárhreppi. Þeir koma því glaðir að borðinu og ég vonast til þess að við náum góðri niðurstöðu í því máli.