138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Svarið lýsir í rauninni þeim veruleika að við hér á þingi sem fjöllum um náttúruverndaráætlun fjöllum hugsanlega bara um hluta þeirra ákvarðana sem teknar eru á þessu sviði. Framkvæmd mála er auðvitað í höndum ráðherra og þeirra stofnana sem til þess eru bærar en eins og ráðherra nefndi, og ég gat raunar um, er aðkoma þingsins lítil.

Einmitt þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að þingið leggist í góða vinnu í kringum þessa náttúruverndaráætlun. Það voru auðvitað vonbrigði hvernig asinn var í sumar og gott að fallið var frá áformum um að klára málið þá. Engu að síður, þó að málið hafi komið hér inn áður og umsagnir hafi komið fram, vil ég undirstrika að það sé mikilvægt að við förum efnislega yfir málið á vettvangi umhverfisnefndar og ræðum m.a. við þá aðila sem hafa komið á framfæri athugasemdum við einstök atriði áætlunarinnar.

Ég heyrði í ræðu hæstv. ráðherra að haft hefði verið samráð við ýmsa úr hópi landeigenda og annarra og af því tilefni velti ég fyrir mér hvort um viðtækara samráð hafi verið að ræða á síðustu mánuðum en við þá aðila sem hún tilgreindi sérstaklega. Ég velti fyrir mér aðilum eins og orkufyrirtækjum eða öðrum slíkum sem kunna að hafa hagsmuna að gæta í sambandi við ákveðin svæði sem hér eru til umfjöllunar.