138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun áranna 2009–2013. Það er mjög mikilvægt að þessi áætlun fái vandaða málsmeðferð, sé lögð fram og fari fyrir þingið eins og lög gera ráð fyrir, að hún sé lögð fyrir í þinginu á fimm ára fresti. Eins og fram hefur komið í umræðunum hingað til telja þingmenn gríðarlega mikilvægt að Alþingi komi að þessum málum á öflugan hátt með mikilli efnislegri umræðu og hafi skoðun á þessu mikilvæga máli. Það er það sem þetta snýst allt saman um, að við fjöllum ítarlega um þetta mál og komumst að skynsamlegri niðurstöðu um náttúruverndaráætlunina.

Það er líka gríðarlega mikilvægt að það reyni hreinlega á það að Alþingi Íslendinga geti skapað sem breiðasta sátt um efni áætlunarinnar. Málið er mikilvægt og það er erfitt að gera sér í hugarlund að mál sem þetta fari í gegnum þingið í miklu ósætti. Ástæðan fyrir því að ég geri þetta að umtalsefni hér er það sem ég kom inn á í fyrra andsvari mínu áðan við hæstv. umhverfisráðherra, sú málsmeðferð sem málið hlaut á sumarþingi. Ég fagna því að hæstv. umhverfisráðherra hefur þá skoðun að málið skuli fá ítarlega málsmeðferð í umhverfisnefnd og ég vonast til að svo verði.

Í ræðu ráðherrans kom fram að málið skarast — í túlkun minni á orðum ráðherrans, skulum við segja — samkvæmt henni er ákveðin skörun við þá vinnu sem er í gangi varðandi gerð rammaáætlunar. Í rammaáætluninni er farið yfir það hvaða svæði skuli vernda og hvar skuli heimilt að rannsaka og nýta til orkuöflunar. Það er gríðarlega mikilvægt að verksvið rammaáætlunarinnar sé skýrt. Sú niðurstaða kemur inn í þingið og þá verður að sjálfsögðu öllum kleift að tjá sig um hana. Það er mjög mikilvægt að ekki séu send skilaboð héðan með því að leggja fram náttúruverndaráætlun þar sem farið er inn á það verksvið. Ég tel að um þetta atriði þurfi að fjalla svolítið í umhverfisnefnd. Vissulega er þetta hvort sitt verkefnið en engu að síður hefur verið mikil sátt um að málin hafi verið lögð inn til verkefnisstjórnar um rammaáætlun og að þar eigi að koma fram málefnaleg niðurstaða byggð á niðurstöðum okkar færustu vísindamanna. Það er erfitt núna þegar sú vinna er á lokasprettinum að fara að rugga þeim bát þannig að ég tel að umhverfisnefnd þurfi að fara yfir þetta atriði og ræða það í þaula.

Frú forseti. Sveitarfélögin í landinu fara með skipulagsvaldið og þess vegna er ávallt hálfviðkvæmt þegar ríkið er að vasast í málum sem sveitarfélögin telja að komi til með að hafa áhrif á valdsvið þeirra. Náttúruverndaráætlun er þar á meðal og þess vegna er eðlilega rík ástæða, og ríkari en ella, til að fara í umtalsvert og náið samráð við þau sveitarfélög sem málið varðar. Hér eru nokkur atriði í þessari náttúruverndaráætlun sem vissulega er þörf á að ræða.

Sveitarfélögin hringinn í kringum landið hafa flestöll sinnt umhverfismálum af miklum myndarskap og sú áhersla sem lögð er á umhverfismálin fer sífellt vaxandi. Sem dæmi má nefna Green Globe verkefnið sem hefur verið í gangi á Snæfellsnesi og eins í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu sem felst í því að ná fram ákveðinni umhverfisvottun á samfélagið. Jafnframt hafa sveitarfélögin gert gangskör í urðunarmálum sínum og sorpi og enn fremur í frárennslismálum. Það er ljóst að sveitarfélögin hafa mikinn metnað í þessum málaflokki og því er full ástæða til að taka mark á því áliti sem sveitarfélögin hafa á því efni sem sett er fram í náttúruverndaráætlun þar sem skipulagsvaldið er þeirra og fólkið sem býr í sveitarfélögunum er þeir einstaklingar sem lifa með landinu og þekkja best hvaða áherslur þarf að leggja varðandi náttúruvernd.

Ég vil gera hér aðeins að umtalsefni stöðu mála um Skaftártungurnar og þá stöðu sem Skaftárhreppur er í. Í náttúruverndaráætlun er lögð fram tillaga um landsvæði þar sem er mikill aurburður. Hann veldur mörgum landeigendum miklum vandræðum. Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur skipað sérstakan vinnuhóp til að gera tillögur um skipulag á þessum svæðum, þar á meðal með tilliti til þeirra ágreiningsmála sem uppi eru um verndun og nýtingu þeirra. Vinnuhópurinn á bráðlega að skila niðurstöðu. Verkið hefur náttúrlega tekið mikinn tíma enda er viðfangsefnið mikið og flókið og það er í rauninni unnið í samráði við Landgræðsluna sem óskað hefur verið eftir að vinni tillögur að því hvernig megi sporna við þessum aurburði.

Það er ljóst að það þarf að fara í framkvæmdir og þess vegna er augljóst að sveitarstjórnin sem ber ábyrgð á því að sveitin haldist í byggð og ber ábyrgð gagnvart íbúum sínum hafi áhyggjur af því að þarna sé verið að grípa til einhvers friðunarferlis sem komi til með að hafa áhrif á þá möguleika sem heimamenn hafa til að verja landið sitt. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að leitað verði lausna til að sporna við þessum aurburði í samráði við heimamenn og jafnframt að kanna hvernig hægt er að draga úr skemmdum bæði á vatni og eins á því ræktunarlandi sem þarna liggur undir. Ég tel að allir sem fara um sveitir í Skaftárhreppi átti sig á þeim náttúruöflum sem þarna eru á ferðinni og hinum miklu hlaupum sem þarna verða og hafa gríðarleg áhrif á lífsgæðin og búsetuhættina heima fyrir.

Á 136. löggjafarþingi var fjallað um náttúruverndaráætlun sem var að flestu leyti samhljóða þeirri þingsályktunartillögu sem lögð er fram hér. Sú þingsályktunartillaga náði ekki fram að ganga en umhverfisnefnd hafði fjallað um þessi atriði og taldi mikilvægt að mikið og náið samráð yrði haft við heimamenn um þetta atriði. Jafnframt var fjallað um nokkur önnur atriði, þar á meðal stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, og það sýnir okkur enn og aftur hversu mikilvægt það er að fara ítarlega yfir það mál.

Þá vek ég athygli á þeim áformum sem uppi eru í þessari þingsályktunartillögu um friðlýsingu hvannstóðs undir austanverðu Reynisfjalli. Þetta mál hefur verið mikið í umræðunni og sú umhverfisnefnd sem starfaði á 136. löggjafarþingi fór yfir það og lagði til að þetta svæði yrði í heild sinni fellt brott úr áætluninni og það var eftir mikið samráð við heimamenn. Nú veit ég að hæstv. umhverfisráðherra hefur frá því í sumar lagt vinnu í að tala við heimamenn, reyna að finna lausn á þessu og skapa einhverja sátt en ég tel gríðarlega mikilvægt í ljósi þess hvernig umfjöllunin um þetta hefur verið og hversu sterk andstaðan hefur verið heima fyrir að umhverfisnefnd fjalli sérstaklega um þetta og fari yfir þau sjónarmið sem fulltrúar sveitarfélagsins hafa á þessari friðun.

Þá var í nefndinni jafnframt fjallað um Egilsstaðaskóg og Egilsstaðakletta sem var lagt til á 136. löggjafarþingi að yrðu felldir brott úr áætluninni en nú hefur umhverfisráðherra að sama skapi, eins og kom fram áðan, haft samráð við heimamenn. Ég tel mikilvægt að umhverfisnefnd fái þessa aðila á sinn fund til þess einfaldlega að fullvissa sig um að þessi niðurstaða sé viðunandi fyrir heimamenn.

Frú forseti. Ég fagna enn og aftur því sem fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra um þá málsmeðferð sem þetta mál kemur vonandi til með að fá í umhverfisnefnd og ég hlakka til að sjá hvernig þingið mun fjalla um þetta viðamikla mál. Ég vonast svo sannarlega til þess að sátt náist um það hvernig náttúruverndaráætlunin kemur til með að líta út til allrar framtíðar því að þetta land eigum við saman. Við ætlum að sjálfsögðu að ganga vel um það en við þurfum að gera það allt saman á skynsamlegan hátt.