138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:40]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól Alþingis til að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að leggja fram tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013, og þó þetta snemma á þinginu. Ég treysti því að umhverfisnefnd vinni að afgreiðslu þessa máls af alúð og gefi sér þann tíma í áætlunina sem þarf. Sumarið í sumar var engu líkt, við unnum hér í þessu hruni sem liggur við að við nefnum í hverri ræðu því að það snertir alla anga samfélagsins, efnahagshrunið sem skall á okkur fyrir ári og teygði svo anga sína í framhaldinu inn á hið annasama sumarþing sem varð til þess að hér varð enginn septemberstúfur eins og ætlað hafði verið til að fullvinna þessa áætlun. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekki komið að sök. Hér kemur tillagan fram aftur og gefst þá tími til að vinna hana betur.

Ég tel að Alþingi eigi að leggja metnað sinn í að vinna vel að slíkum áætlunum. Þetta er stefnumarkandi, þetta er undanfari þess að friðlýsa staði, svæði eða vistkerfi og ég er sannfærð um að skilningur fólks almennt hefur aukist á mikilvægi þess að friða svæði, að vernda svæði, að hafa þessa sýn. Ég tel enga ástæðu til að bíða eftir niðurstöðum þeirrar nefndar sem vinnur að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það er út frá öðrum forsendum en náttúruverndaráætlunin er gerð. Hugsanlega stangast þessar áætlanir á, vonandi ekki, því að þær eiga hvor um sig að byggjast á ákveðnum forsendum þótt mismunandi séu. Hér er það náttúruverndin, í hinu er unnið út frá nýtingunni og náttúruverndinni þar með en nýtingaráherslan er þar í fyrirrúmi. Ef svæði eða staðir sem koma fram í náttúruverndaráætlun og tillögur um friðlýsingu falla innan sömu skilgreiningar í rammaáætluninni hlýtur það að segja okkur enn frekar hversu mikilvæg þau svæði eða þeir staðir eru til náttúruverndar ef það fellur saman og ef ekki kemur að okkur sem þjóð að meta hvort við metum meira nýtingargildi eða náttúruverndargildi svæðisins. Ég er sannfærð um að þegar til lengri tíma er litið mun það hafa meira gildi fyrir okkur sem þjóð að horfa á náttúruverndina og verndargildin en nýtingargildin. Nýtingargildin eru í mörgum tilfellum það sem er talið gagnast okkur akkúrat núna en verndargildin eru til framtíðar og ég tel að af mörgum ástæðum sé sterkara fyrir okkur að standa vörð um þau gildi og ekki síður með tilliti til atvinnusköpunar. Vernd á svæði getur verið jafnatvinnuskapandi og nýting til orkunotkunar eins og við höfum litið til í dag.

Hér er litið á plöntusvæði, dýrasvæði og vistgerðir á hálendinu, jarðhitasvæði og jarðfræðisvæði. Mér finnst að með þessari áætlun eigum við til lengri framtíðar að horfa á Vatnajökulsþjóðgarð sem þjóðgarð hálendisins, að hann nái yfir það sem við töldum okkur vera nokkuð sammála um fyrir nokkrum árum að væri hálendi. Það var þegar maður fór inn á miðhálendið, þessir hefðbundnu þjóðvegir tóku enda og maður fór inn á hálendisvegina, eins og nafnið bendir til upp fyrir ákveðna hæð og inn á flatneskjuna þar. Ég hefði viljað sjá það svæði sem Vatnajökulsþjóðgarðinn okkar eða friðland í framtíðinni, allt sem eitt, ekki í bútum lengur, og er alveg sannfærð um að það yrði okkur til mikils framdráttar, ekki síst hvað atvinnusköpun snertir.

Hér væri hægt að gleyma sér í nokkrum einstökum svæðum, bæði plöntusvæðum og dýrasvæðum. Ég hef átt þess kost að fara um Eyjólfsstaðaskóg — því að hann var nefndur hér áðan — og skoða þar skófir sem eru mjög sérstakar. Það sem við sem venjulegir íbúar eða ferðamenn lítum á sem einhverjar venjulegar skófir eru kannski ekkert venjulegar skófir. Þarna er mjög sérstakt plöntulíf sem maður þarf jafnvel ábendingar til að taka eftir. Það held ég að geti líka kennt okkur að betur sjá augu en auga, og glöggt er gests augað. Við þurfum oft að fá fólk erlendis frá til að sækja okkur heim, fólk sem opnar augu okkar fyrir því hvað við eigum, hvað við höfum, hvers lags forréttinda við njótum að búa við þá náttúru sem við höfum.

Þá vil ég t.d. nefna Reykjanes. Þar hefði að mínu mati verið hægt að byggja upp fyrir Suðurnesin alveg stórkostlega möguleika til ferðaþjónustu, til að nýta háhitasvæðið, til að nýta hverasvæðin, fuglabjörgin, hraunin, flekasvæðin, allt til þess að byggja upp sterka og öfluga ferðaþjónustu, standa saman og einhenda sér í að gera þetta að merkilegu og eftirtektarverðu svæði til að laða að ferðamenn og byggja það þannig upp. En við höfum ákveðið að nýta háhitann þar til stóriðju. Þetta er val en ég tel að oft þurfi utanaðkomandi fólk til að benda okkur á hvað verið sé að gera hér. Þetta er stórkostlegt svæði sem er nú að fara til spillis eða til annarra nota.

Ég vil fá að minnast á stórt og mikið svæði sem er á dagskrá í dag, þ.e. tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár. Þetta er þingsályktunartillaga sem ég er 1. flutningsmaður að en fleiri þingmenn flytja hana hér með mér. Þetta er þá í annað sinn sem hún verður flutt, hún var lögð fram á síðasta þingi en fékkst ekki rædd. Ég tel að sú þingsályktunartillaga hefði hreinlega átt að falla að náttúruverndaráætlun, og ætti að gera það, að horfa til alls vatnasviðs Skjálfandafljóts ofan Mjóadalsár sem friðlýsts svæðis og Skjálfandafljóts sjálfs þar sem það rennur norður Bárðardalinn og til hafs. Þetta er stórkostlegt náttúrusvið sem við eigum í kringum (Forseti hringir.) fljótið og ég legg til að þetta falli saman, friðlýsingin og náttúruverndaráætlunin.