138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og yfirferð yfir þetta en ég hlakka til að sjá störf umhverfisnefndar um málið.

Ég beini spurningu til hv. þingmanns um þessa skörun á milli náttúruverndaráætlunar og starfa þingsins í kringum hana og þá þeirrar vinnu sem á sér stað um rammaáætlun. Vissulega lýsti hv. þingmaður ákveðinni skoðun áðan og ákveðinni hlið málsins en ég tel augljóst að í rauninni sé verið að beina ákveðnum skilaboðum inn í verkefnisstjórnina um rammaáætlun, t.d. um að það eigi að koma ákveðin niðurstaða varðandi Þjórsárver. Af hverju er ekki hægt að bíða með þennan lið þangað til niðurstaða kemur úr rammaáætlun?

Eins og hæstv. ráðherra fjallaði um kemur niðurstaðan úr þeirri vinnu væntanlega til með að hafa þau áhrif að farið verði í friðlýsingar á ákveðnum svæðum. Eigum við þá ekki bara að koma heil að því verki og gera það þá í einhverju samhengi í staðinn fyrir að lýsa núna yfir friðun á þessu ákveðna svæði sem allir vita að er meðal fjölmargra annarra í þeirri vinnu sem fer fram í rammaáætlun? Er ekki einfaldlega betra að það sé komið hreint að því borði og að rammaáætlun fái að ganga sinn veg inn í þingið og þá sé fjallað um málið á heildstæðum grunni? Það er akkúrat heildartilgangurinn með því að fara í þessa vinnu sem rammaáætlunin er og við öll, stjórnmálamennirnir, vísum til sem fyrirmyndarvinnubragða á því hvernig eigi að taka á því stóra verkefni hvar megi vernda, hvað rannsaka og hvað nýta. Það væri ágætt að fá þessa afstöðu aðeins skýrar fram hjá hv. þingmanni.