138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:53]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég leit með mikilli eftirvæntingu til þeirrar vinnu sem fór í gang þegar rammaáætlunin var sett á laggirnar. Ég trúði því að þetta væri sá rammi sem við gætum náð sátt um eins og var hugmyndin, að við mundum klára þetta og síðan vinna eftir því.

Það er eingöngu búið að vinna fyrsta hlutann af þessu ferli og við höfum ekki farið eftir þeim ramma sem þá var lagður fram, við höfum aldrei klárað vinnuna. Við erum nú sem aldrei fyrr með áætlanir um virkjanir, stóriðju og framkvæmdir á þessum svæðum sem var þó búið að ramma inn í verndaráætlun, verndargildi, og voru ekki fremst í röðinni hvað varðaði jákvæða nýtingu eða lagt til að þá væri farið þar inn.

Þessi fyrsti hluti var lagður fram og síðan fór þetta í gang, menn lögðust yfir það hvar best væri að koma niður stóriðju, hvar yrði þá að virkja. Við erum komin svo langt fram úr okkur að það er búið að samþykkja og vinna eftir því að koma hér niður stóriðju á Reykjanesi sem ekki einu sinni orka er til í. Inn á hvaða svæði á að fara og hvað segir rammaáætlunin um það? Eigum við þá ekki að koma með þann mótleik eða varnarleik eða þá aðgerð á móti að reyna a.m.k. að sporna við og ekki vera með rammaáætlun sem við erum í raun og veru komin langt út fyrir?