138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:57]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Já, það er synd að vera hér í stuttu andsvari, en eins og ég nefndi áðan hafði ég mikla trú á rammaáætluninni. Ég hélt og trúði því að þarna væri 1. áfangi, svo kláruðum við þetta og ynnum þá eftir því. En það leið ekki langur tími þangað til ekkert var lengur farið eftir þessu, þetta bara sprakk í höndunum á okkur.

Þó að það sé svona stutt í að nefndin eigi að skila af sér er alls staðar verið á fullu, búið að vera á fullu við að undirbúa stóriðju og orkufrekan iðnað. Því hefur þessi ríkisstjórn sett sér það markmið — það þarf að standa við gildandi samninga sem búið er að binda og ekki stendur til að rifta þeim en þar með skulum við líka segja stopp, við skulum bíða þangað til þessari vinnu er lokið og við skulum líka klára náttúruverndaráætlunina. Við skulum klára þessar friðlýsingar áður en við tökum næstu kollsteypur með einhverjar áætlanir og plön sem við höfum engan grunn til að byggja á vegna þess að við höfum ekki framtíðarsýn um hvar við ætlum að vernda.

Það er mikilvægt að þeir sem lifa og hrærast í hugmyndum um orkufrekan iðnað horfi ekki bara á rammaáætlunina út frá nýtingarsjónarmiðunum, við þurfum líka að hafa náttúruverndaráætlunina þar við hliðina og láta hana gilda jafnmikið og nýtingaráætlunina og vega þetta og meta. Við höfum látið orkunýtingarhugmyndirnar ráða af því að það hefur verið sú hugsun fram til þessa að skylda okkar sé að nýta náttúru landsins sem (Forseti hringir.) samasemmerki við að það eigi að virkja.