138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:59]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna því að við ræðum nú loks náttúruverndaráætlun þótt hún sé ekki að koma hingað inn í fyrsta skipti og auðvitað sé löngu tímabært að fá hana til vinnslu. Þessi verndaráætlun á að taka til ársins í ár, 2009 til 2013, þannig að við erum ansi sein á okkur.

Rætt er um að friðlýsa tólf svæði og þar fyrir utan 24 tegundir háplantna, 45 tegundir mosa, 90 tegundir fléttna, þrjár tegundir hryggleysingja og tvær vistgerðir. Ég ætla ekki að lesa þetta allt upp en það á að fara að vernda heilmargt. Í upphafi þingsályktunartillögunnar er tilgreint hvaða svæði þetta eru. Þetta eru bæði plöntusvæði, dýrasvæði og vistgerðir á hálendinu, jarðfræði og svo tegundir plantna og dýra. Á þessu máli hefur verið gerð veigalítil breyting síðan það var flutt síðast og hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir gerði ágætlega grein fyrir því. Búið er að taka út fjalllendið og Hoffell, það komið inn í Vatnajökulsþjóðgarð, og síðan er búið að minnka verndarsvæði brekkubobbans í undirhlíðum Reynisfjalls. Síðan hafa greinilega átt sér stað viðræður við landeigendur á Egilsstöðum I og fulltrúa Fljótsdalshéraðs um Egilsstaðaskóg og það á að reyna að gera aðrar tillögur til að ná frekari samstöðu um það mál. Ég fagna því.

Ég vildi taka upp það sem við komum inn á í sumar líka, að þessar áætlanir ganga svo hægt, það er svo sligandi hvað þetta gengur allt hægt og það hrópar á mann þegar maður les þessa tillögu. Sú sem hér stendur átti þátt í að leggja fram náttúruverndaráætlunina 2004–2008 og það var heilmikið verk að koma henni fram. Við fórum og heimsóttum um 77 svæði sem voru í drögum að náttúruverndaráætlun og í það fór heilt sumar. Það var reyndar gæðatími, ef svo má að orði komast, og skemmtilegt að fá að ferðast um þessi frábæru svæði með sérfræðingum og heimamönnum. Þá voru valin að mig minnir 14 svæði og nú er búið að friðlýsa þrjú þeirra. Þetta er frekar lítið, virðulegi forseti, að ná einungis þremur í höfn. Okkar trú var að við næðum þessu meira eða minna í höfn á þessum árum. Núna upplifir maður að þetta er gífurlega þungt ferli, þessi mál eru sum í ferlinu en önnur eru í biðstöðu og í greinargerðinni er viðurkennt að ekkert hefur þokast með þau. Þetta veldur því að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að umhverfisnefnd, sem ég á reyndar ekki sæti í, velti fyrir sér af hverju þetta ferli er svona þungt og seint, hvort hægt sé að gera eitthvað til að flýta því og gera verkferlin þannig að frekari sátt náist um þessi svæði og skilningur á því að það er mikilvægt að vernda ákveðna hluta náttúru Íslands.

Á bls. 4 kemur fram, og ég innti hæstv. umhverfisráðherra líka eftir þessu í sumar, að Umhverfisstofnun hafi unnið greiningu á hugsanlegum hagsmunaárekstrum á þeim svæðum sem komu helst til greina í nýja náttúruverndaráætlun. Teknar voru saman upplýsingar um landeigendur á svæðunum og til hvaða sveitarfélaga þau heyrðu. Það væri ágætt að fá að heyra meira um þetta mat eða þessa greiningu, virðulegi forseti. Er hún tilefni til að halda að þessi náttúruverndaráætlun muni ganga álíka seint og sú fyrri? Ég tel að það sé mjög óheppilegt ef við náum ekki að klára þessar áætlanir á milli þess sem þær eru endurskoðaðar. Þá hleðst upp bunki af svæðum og þetta gengur allt mjög seint. Ég held að það sé mjög snjallt að gera svona hagsmunamat eða greiningu á hugsanlegum hagsmunaárekstrum til að geta þá frekar áttað sig á því hvar hnífurinn stendur í kúnni gagnvart hverju svæði fyrir sig og reyna að eiga við þá erfiðu stöðu.

Í greinargerðinni kemur líka fram að 20% af Íslandi er þegar verndað með lögum, annaðhvort á grundvelli náttúruverndarlaga eða með sérlögum. Það blasir við að landið okkar er svo sérstakt að þessi tala er líklega frekar lág miðað við það sem verður í framtíðinni. Alla vega er það mín trú að við munum sjá miklu hærri tölur í framtíðinni hvað varðar svæðin sem við viljum vernda og ekki raska. Tiltölulega nýlega var kortlagt hvaða svæði á Íslandi eru ósnortin samkvæmt lagaskilgreiningu, þ.e. eru að minnsta kosti 25 ferkílómetrar að stærð og 5 kílómetrar í næsta manngerða mannvirki. Slík svæði eru skilgreind sem ósnortin víðátta og rúmlega 40% landsins falla undir þá skilgreiningu, þá eru jöklar taldir með. Þetta er auðvitað afar mikil sérstaða, nágrannaríki okkar og þótt víðar væri leitað eru flest með 0% ósnortin svæði. Við munum því örugglega sjá talsvert hærri tölur í framtíðinni hvað varðar svæði sem eru vernduð og friðuð enda virðist fólk almennt gera sér sífellt meiri grein fyrir því að það að vernda er ekki það sama og að tapa peningum eins og menn hafa stundum tilhneigingu til að halda. Verndun getur skapað geysilega miklar tekjur í framtíðinni, ekki síst í ferðaþjónustunni

Í greinargerðinni er fjallað um Geysi í Haukadal og mig langar að kanna hvort hæstv. umhverfisráðherra geti upplýst okkur meira um það. Þar stendur að ekki sé búið að hefja friðlýsingarferli á Geysissvæðinu þar sem ákveðið var í samráði við umhverfisráðuneytið að bíða eftir kaupum ríkisins á því. Sú er hér stendur hélt að búið væri að ganga frá þessum kaupum en vera má að það hafi verið misskilningur. Ágætt væri að fá að heyra meira um það.

Einnig er á bls. 17 í greinargerðinni fjallað um Skeiðarársand, Jökulsárgljúfur og Öxarfjörð. Þar stendur að í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð hafi umhverfisráðuneytið tekið upp viðræður við landeigendur á Skeiðarársandi og svæðum við Jökulsárgljúfur og Öxarfjörð til að kanna vilja og afstöðu þeirra til þess að Skeiðarársandur innan Austur-Skaftafellssýslu og svæðið meðfram Jökulsá á Fjöllum væri friðlýst sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þetta er hugmyndafræði sem mér hugnast vel. Þá nær þessi stærsti þjóðgarður í Evrópu yfir Vatnajökul og líklega hraun norðan hans, Jökulsá á Fjöllum til hafs og Skeiðarársand til hafs. Þetta er heildstæð náttúrusmíð sem mjög æskilegt væri að vernda.

Virðulegi forseti. Hér kemur fram að þrátt fyrir ítrekaðar viðræður við landeigendur hafi ekki reynst áhugi á því hjá þeim fyrir að svæðin verði friðlýst sem hluti þjóðgarðsins. Tenging þjóðgarðsins til sjávar er að mati ráðuneytisins mjög mikilvæg til að skapa heildstæða friðun þeirra náttúruminja sem tengjast samspili elds og íss og landslagsheildum sem mótaðar eru af því. Mig langar af þessu tilefni að spyrja hvort þessar upplýsingar um að landeigendur hafi ekki áhuga eigi einungis við um Skeiðarársand eða líka um svæðin meðfram Jökulsá á Fjöllum. Hafa landeigendur þar ekki áhuga á þessu eða á það einungis við um Skeiðarársand? Ég hef alla vega upplýsingar um að þar sé ekki mikill áhugi á þessu.

Virðulegi forseti. Í tillögunni er ekkert svæði í hafi en á umhverfisþingi kom fram áhersla á friðun hafsvæða. Ég held að eðlilegt sé að skoða það líka, þótt þau séu ekki inni í þessari áætlun þarf að huga að því í umhverfisráðuneytinu. Einnig sé ég að það er prentað inn í greinargerðina að um ákveðin svæði komu fram ábendingar frá þingfulltrúum og umhverfisþinginu, svo sem Torfajökulssvæðið, Langasjó, Jökulsá á Fjöllum, Brennisteinsfjöll o.s.frv. Ég vil taka undir að Torfajökulssvæðið er svæði sem ég tel að við þurfum sérstaklega að huga að. Ég tel að rammaáætlunin um nýtingu vatnsafls við jarðvarma þurfi að koma hingað inn sem fyrst og fá sérstaka stöðu. Hæstv. ráðherra getur kannski upplýst um í hvað stefnir í því en það verður auðvitað að gera heildstæðar áætlanir þótt sveitarfélögin hafi sýnt takmarkaðan skilning á því að einhvers konar (Forseti hringir.) landsáætlun verði að vera sem tekur mið af öllum þeim áætlunum sem þegar er búið að samþykkja.