138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:37]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu um fram lagða þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun. Hér hafa komið fram býsna margar spurningar og ég ætla að reyna að víkja að þeim flestum.

Almennt finnst mér sú umræða sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir vakti áðan gríðarlega mikilvæg, þ.e. umræðan um ýmsar áætlanir á landsvísu. Nú erum við ekki bara að leggja fram náttúruverndaráætlun heldur bíðum við einnig eftir að rammaáætlun verði lögð fram. Við höfum samgönguáætlun, svo er eitthvað til sem heitir byggðaáætlun og nú er verið að vinna sóknaráætlun sem er líka fyrir landið. Við erum í þeirri stöðu að sveitarfélögin eru með skipulagsvaldið, eða a.m.k. skipulagsframkvæmdina, á sinni hendi þó að ráðherra hafi síðan staðfestingarvaldið.

Verandi komin upphaflega frá sveitarfélögunum og núna í sæti umhverfisráðherra er ég sífellt að verða vissari í þeirri skoðun að í þessum málaflokki, og raunar auðvitað öllum málaflokkum en sérstaklega í þessum að því er varðar ráðstöfun lands, þarf að efla þann skilning að ríki og sveitarfélög geti ekki verið annað en tvær hliðar hins opinbera, þ.e. samherjar í að ráðstafa landi. Sú umræða hefur stundum þróast þannig að annar aðilinn sé yfir hinn hafinn, hvort sem það er umræðan eins og hún hefur stundum verið um landsskipulagið þar sem ríkið hefur tekið ákvörðun sem sveitarfélögin eiga að lúta eða þessi yfirlýsing um að sveitarfélögin hafi skipulagsvaldið og ríkið eigi ekki að skipta sér af því. Þegar allt kemur til alls erum við ekkert nema þjónar almennings, sum sem þingmenn og ráðherrar og aðrir sem sveitarstjórnarmenn. Við erum kosin í lýðræðislegum kosningum, við fáum til ráðstöfunar fé sem almenningur greiðir með sköttum og okkur ber að ráðstafa því fé í þágu þessa sama almennings. Við þjónum sama almenningi hvort sem við erum þingmenn Suðurkjördæmis eða sveitarstjórnarmenn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þetta fer allt saman og því held ég að það sé ekki umræðunni til framdráttar að dvelja of lengi við hver er með hvaða vald.

Hins vegar er það sannarlega flókið og snúið verkefni að samhæfa allar þessar áætlanir. Hvernig í ósköpunum eigum við að fara að því? Þær skarast, og þá á ég ekki bara við áætlun ríkisins annars vegar og hins vegar sveitarfélaganna heldur líka ríkisins og ríkisins, þ.e. áætlun um til að mynda samgöngur og áætlun um náttúruvernd eða áætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og hvernig það kemur heim og saman við byggðaáætlun. Þetta verður allt að samhæfa með einhvers konar yfirsýn en þó þannig að sveitarfélögin haldi þeirri stöðu að vera það vald sem er næst íbúunum og fari með þá hagsmuni af kostgæfni. Við þyrftum að eiga þessa umræðu við þingmenn, virðulegi forseti, og hafa til þess miklu lengri tíma. Þetta er gríðarlega mikilvægt, ekki síst vegna þess að ég hyggst leggja fram nýtt frumvarp um skipulags- og byggingarlög mjög fljótlega. Þá munum við væntanlega geta gefið okkur lengri tíma í að ræða ítarlega þessa sameiginlegu sýn ríkis og sveitarfélaga á ráðstöfun og landnýtingu.

Þingmaðurinn nefndi Green Globe og vottunina á Snæfellsnesi, í Rangárvallasýslu og víðar. Ég er algjörlega heilluð af þeirri vinnu sem Náttúrustofa Vesturlands hefur verið að leggja fram, þessa stórhuga hugmynd um að Green Globe-votta öll sveitarfélög á Íslandi. Ég held að þarna sé þess virði að leggja við hlustir því að vottunarþekkingin er að aukast í landinu. Til að byrja með þurfti að kalla eftir þessari þekkingu erlendis frá en hún er að verða til á Íslandi. Við gætum sjálf séð um að votta og síðan að fylgja vottuninni eftir en það yrði auðvitað einstök staða í heiminum fyrir Ísland ef öll sveitarfélög væru Green Globe-vottuð. Talandi um sóknarfæri, sjálfsmynd og ímyndarkrísu þjóðar í kreppu held ég að þar væri mikið sóknarfæri.

Ég öfunda hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að vera þingmaður Suðurkjördæmis þegar talað er um náttúruvernd því að varla eru víðar í landinu eins miklir slagkraftar í einmitt þessum málaflokki. Við erum að tala um Þjórsárver, Langasjó og eldfjallavirknisvæðin og möguleikana þar, hina botnlausu bjartsýni og þrótt sem er undir Jökli og bjartsýnina og kraftinn sem er til að mynda á Höfn í Hornafirði, þessa tilfinningu fyrir þjóðgarðinum og skilninginn á því hvað Vatnajökulsþjóðgarðurinn er mikill segull og framtíðarþróttinn í því öllu saman.

Hv. þingmaður staldraði sérstaklega við Skaftárhrepp en ég hef einnig lagt mikla áherslu á það. Þingmaðurinn segir sem svo: Það þarf að sporna við aurburði í samráði við heimamenn. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Við erum með þennan ítarlega samráðshóp með ráðuneytinu, hreppnum, Landgræðslunni, Veðurstofunni og Vatnajökulsþjóðgarði sem ég nefndi áðan. Við vinnum saman að lausn á veitingu vatns út á hraunið, aurburði, verndarsvæði í þjóðgarði og virkjunarhugmyndum. Sveitarfélagið hefur væntingar um að geta leyst þetta allt í samvinnu og komið inn í aðalskipulagið og geta klárað fullgildingu aðalskipulags fyrir vorið.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi allnokkra þætti, til að mynda stöðu mála varðandi Geysi í Haukadal. Því er til að svara að það mál er í biðstöðu, því miður. Hún nefndi líka sóknarfæri hvað varðar friðlýsingu á sjó en þar þarf lengri undirbúning en við höfum haft í ráðuneytinu, a.m.k. í minni tíð, því að fleiri ráðuneyti koma að því. Hún ræddi einnig það sem mér finnst afar mikilvægt í þessari umræðu allri, þ.e. þessa viðhorfsbreytingu sem er að verða í samfélaginu, sóknarfæri í friðlýsingum og náttúruvernd. Bestu dæmin eru auðvitað sunnan jökuls og á Höfn í Hornafirði þar sem maður sér sóknarfæri bæði í atvinnutækifærum og ferðaþjónustu sem eru í beinni tengingu við friðlýsingu og Vatnajökulsþjóðgarð. Verndun skapar nefnilega fjárhagslegan ávinning og þannig er mikilvægt að skoða það líka, það eru fleiri hliðar en hin hefðbundnu náttúruverndarrök sem eru þó sterk og standa fyllilega fyrir sínu.

Mig langar að lokum að víkja orðum mínum að ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Ég verð að segja að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Hann er samkvæmur sjálfum sér í öllum sínum málflutningi. Ég er alls ekki sammála honum en hann undirbyggir sínar ræður með sterkum röksemdum út frá ákveðnum forsendum og það er gott. Það er mikilvægt að við hér í þinginu eigum slík samskipti og forðumst skotgrafaumræðu í öllum málaflokkum en mér er það sérstaklega mikilvægt í umhverfis- og náttúruverndarumræðunni.

Hann nefndi að Samtök atvinnulífsins, eða hann reyndar nefndi að Alþýðusamband Íslands hefði gert athugasemdir um regluverkið sem er í kringum umhverfis- og náttúruverndarmál. Ég er sammála því að það þarf að rýna og skoða betur öll þessi möt sem koma hvert á eftir öðru og enginn veit nákvæmlega hvar eru stödd. Skipulagsferillinn og matsferillinn allur er oft og einatt mjög flókinn og snúinn þannig að ég deili þeirri hugmynd. Hins vegar er ég ekki þeirrar skoðunar að það eigi að gefa afslátt af þeirri skoðun og þeirri rýni sem þarf að fara fram í þágu náttúrunnar og umhverfisins þegar sjónum er beint að mögulegum virkjunum.

Hann tók nokkuð djúpt í árinni, enda var hann sennilega farinn að hitna undir lokin á sinni ræðu, en sú sem hér stendur hefur beinlínis greitt atkvæði með virkjun sem fulltrúi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er því ekki endilega einsleitt og ekki eins og hann vildi draga myndina upp. Við erum sammála um að við verðum að feta leið nýtingar og verndunar, eða það einstigi sem þar er á milli, og þetta þarf að vera í eðlilegu samspili en við erum kannski ekki nákvæmlega sammála um hvernig áherslan á að vera og hver forgangsröðunin á að vera.

Ég vil að lokum lofa þingmönnum því að ég er talsmaður þess að náttúruverndaráætlun fái ítarlega og góða vinnu í umhverfisnefnd (Forseti hringir.) og vænti mikils af þeirri vinnu.