138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

13. mál
[20:00]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög þarft mál, raunverulega áskorun Alþingis til ríkisstjórnarinnar um að beita sér fyrir því að hvatt sé til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Þingsályktunartillagan skiptist í þrennt, í fyrsta lagi setningu rammalöggjafar um fjárfestingu erlendra aðila, í öðru lagi að gerð verði áætlun um orkuafhendingu til a.m.k. fimm ára og alltaf liggi fyrir plan um hvernig hægt sé að afhenda orku til þetta langs tíma og í þriðja lagi endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram að gefnu tilefni. Hvað varðar fyrsta þáttinn, setningu rammalöggjafar um fjárfestingar, er málum nú svo háttað hér að ef um er að ræða stórar erlendar fjárfestingar sem þarfnast einhvern veginn atbeina hins opinbera þarf að setja lög um þá fjárfestingu á Alþingi með öllum þeim undanþágum og þeirri smurningu sem þarf að setja á þá fjárfestingu. Það er tímafrekt ferli. Þetta er ferli sem oft verður bitbein stjórnmálamannanna.

Ástæðan fyrir því að við viljum setja upp rammalöggjöf sem síðan yrði fylgt eftir með reglugerðum um hvert og eitt verkefni í ráðuneytum er sú að hér vantar núna mjög sárlega erlendar fjárfestingar til að afla okkur gjaldeyristekna, m.a. gjaldeyristekna til að standa undir öðru máli sem er á dagskrá hins virðulega Alþingis núna, Icesave-málinu. Með því að hér verði sett rammalöggjöf er það trú okkar flutningsmanna að það verði til þess að liðka fyrir fjárfestingu. Þá er betur hægt að sýna áhugasömum fram á það umhverfi sem Íslendingar búa við.

Í öðru lagi er þetta með orkuafhendinguna. Eins og staðan er núna og hefur verið mörg undanfarin ár er alls ekkert á hreinu hvenær er hægt að afhenda orku, hversu mikla orku er hægt að afhenda o.s.frv. Á þessu teljum við flutningsmenn að þurfi að ráða bót og leggjum til að hér sé alltaf til áætlun til a.m.k. fimm ára um hvaða kostir liggi fyrir og hvað sé hægt að bjóða fram af orku.

Það er algjörlega ljóst að orka er ein okkar mesta auðlind og hún er vannýtt núna, bæði orkan úr fallvötnunum og orkan úr iðrum jarðar, þ.e. jarðhitinn. Við leggjum mikla áherslu á að þessi orka verði nýtt, öllum Íslendingum til hagsbóta og til að tryggja okkur góð og mannsæmandi lífskjör í landinu.

Í þriðja lagi er endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Eins og ferlið er sett upp núna tekur langan tíma að fara í gegnum umhverfismat með framkvæmdir. Það eru margir þröskuldar sem þarf að stíga yfir. Það eru kærufrestir á hinum og þessum stöðum í ferlinu og síðast en ekki síst, eftir að þessu ferli er við það að ljúka, kemur til kasta pólitíkusa þar sem þeir geta haft pólitíska íhlutun í málið. Ferlið var sett upp þannig að faglega yrði tekið á hverju og einu verkefni.

Því miður hafa dæmin á þessu ári og því síðasta sýnt að freistingin fyrir stjórnmálamennina til að grípa inn í þetta ferli virðist vera of mikil til að þeir standist það. Þá er ég með í huga tilviljanakennda ákvörðun um að mögulegt álver á Bakka og orkuver á Þeistareykjum skyldu fara í sameiginlegt umhverfismat, en það setti mikla óvissu í það mál og allt útlit er fyrir að sú ákvörðun hafi leitt til þess að framkvæmdinni var frestað. Slík framkvæmd á þeim tíma hefði núna skipt gríðarlega miklu máli fyrir okkur Íslendinga, en það varð ekki af henni vegna þessara tilviljanakenndu ákvarðana. Það er augljóst að þetta má ekki gerast.

Annað dæmi sem ég get nefnt er nýtt, þegar umhverfisráðherra virtist taka ákvörðun um að Suðvesturlína og Helguvík færu í sameiginlegt umhverfismat og það var ekki út frá málefnalegum sjónarmiðum. Sú ákvörðun setti þá framkvæmd alla í uppnám. Þegar erlendir aðilar eru hvattir til að fara út í fjárfestingar á Íslandi er mikilvægt að allir þessir hlutir liggi skýrt fyrir til að óvissa þessara fjárfesta sé sem minnst, að þetta sé gagnsætt ferli, ekki tilviljanakennt og ekki háð pólitískum duttlungum.

Þessi þingsályktunartillaga miðar að því að skýra það umhverfi sem erlend fjárfesting býr við á Íslandi til að auðvelda hana þannig að allir Íslendingar fái notið, eins og ég sagði áðan.

Fleiri þættir koma til. Í þeirri glímu sem ríkisstjórnin á nú við í sambandi við ríkisfjármálin hafa komið upp alls konar hugmyndir um hvernig mætti loka fjárlagagatinu. Það hafa komið upp hugmyndir um orkuskatta sem mundu leggjast á alla þar sem álfyrirtækin stæðu undir u.þ.b. 75% af þeim skatti. Það hafa komið upp hugmyndir um auðlindagjöld sem snúa þá að því að reyna að skattleggja kolefni. Öllum þessum hlutum er hent tilviljanakennt inn í umræðuna sem setur mikla óvissu í allar áætlanir erlendu fjárfestingaaðilanna. Það letur þá eða hamlar fjárfestingu sem er bagalegt. Þessu þarf auðvitað snarlega að breyta og koma hér fram af miklu heildstæðari, gagnsærri og, ef maður á að sletta, meira „professional“ hætti gagnvart erlendum fjárfestum.

Við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu teljum gríðarlega mikilvægt að taka á þessum þrem liðum, þ.e. setningu rammalöggjafarinnar um fjárfestinguna, áætlun um orkuafhendinguna og endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Við skorum á ríkisstjórnina að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem koma hér fram.