138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

13. mál
[20:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka þingmanninum fyrir hlý orð í garð þessa máls vegna þess að ég veit að hv. þingmaður er þessu algjörlega sammála. Þetta með orkubankann var ansi athyglisverð hugmynd en ég er sammála hv. þingmanni um það að erfitt er að sjá fyrir sér hver ætti að bera kostnað af því og þess vegna held ég að það sé betri leið sem verið er að leggja til í þessari þingsályktunartillögu, að það liggi fyrir áætlanir sem hægt er að grípa til um leið og orkukaupendur finnast, þ.e. að þá sé búið að fara með verkefnið í gegnum umhverfismat og fyrir liggi þær rannsóknir sem þarf að gera. Auðvitað kostar það fjárfestingu af hálfu orkufyrirtækjanna en það ætti að vera sá rannsóknar- og þróunarkostnaður sem orkufyrirtæki þurfa alltaf að leggja í, burt séð frá því nákvæmlega hvenær á að byrja að afhenda orku. Það ætti raunverulega að vera sá banki sem við hefðum, þ.e. svona áætlanabanki gætum við sagt.

Varðandi gagnaverin og virðisaukaskattinn þá ræddum við flutningsmenn það mál svolítið að það gæti jafnvel verið hugmynd að taka upp svipað fyrirkomulag og notað er í sumum þróunarlöndum, þ.e. eins og í Kína og Indlandi, að taka upp það sem kallað er „Special economic zones“ sem eru svæði sem eru undanþegin sköttum eins og virðisaukaskatti og öðru slíku, til að koma í veg fyrir vandamál eins og skapast í gagnaverunum með tölvubúnað og annað slíkt. Það gæti verið hugmynd.