138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

13. mál
[20:34]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna í dag um þessa tillögu til þingsályktunar. Umræðan hefur verið mjög góð og málefnaleg og það er greinilega mikil samstaða í þinginu um að þetta mikilvæga mál komist í gegnum þingið. Enda er það svo að það er mikilvægasta hlutverk okkar þingmanna að stuðla að því að hér skapist tækifæri sem leiða af sér fleiri störf, tækifæri sem jafnframt leiða af sér gjaldeyristekjur. Þetta mál beinir spjótum okkar að því að liðka fyrir að svo megi verða.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að fara yfir. Það var athyglisvert í ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar að benda á að liðir b og c í þingsályktunartillögunni gagnist jafnframt innlendum fjárfestum og er það alveg laukrétt, enda er mikilvægt að þeir sitji við sama borð og aðrir.

Það eru einnig nokkur atriði í tillögunni sem mig langar að vekja sérstaka athygli á og ekki hafa verið rædd mikið í dag. Í fyrsta lagi varðandi umhverfismatsferlið. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé allt saman skýrt og að þeir aðilar sem hingað koma geti verið fullvissir um að íslensk stjórnvöld standi við þau lög og reglur sem gilda á Íslandi og unnið sé eftir þeim, vegna þess að við höfum rekið okkur á það að svo er ekki. Í ákveðnum tilvikum virðast vera einhver önnur sjónarmið þar að baki og má nefna sem dæmi að Sunnlendingar þurftu að sjá á bak stórri kísilverksmiðju sem stóð til að staðsetja í Ölfusi. Hún fór til Kanada þar sem ekki var hægt að fá staðfestingu á því í umhverfisráðuneytinu að staðið yrði við þá tímafresti sem gilda um umhverfismat í tengslum við þær framkvæmdir. Þetta er tiltölulega einföld spurning frá erlendum fjárfestum: Verður staðið við tímafresti í lögum? Því var ekki hægt að svara, þannig að þetta er verulegt vandamál sem þarf að taka á. Það er gríðarlega mikilvægt að byggja upp þetta traust sem hv. þingmenn hafa talað mikið um í dag, vegna þess að á því byggist vilji þeirra erlendu fjárfesta sem hingað vilja koma. Að sjálfsögðu verður að vera traust á því að staðið sé við þær ákvarðanir og þá samninga sem gerðir hafa verið.

Þess vegna er eðlilegt að þingheimur allur hafi logað hér þegar fjárlagafrumvarpið kom út þar sem var slegið fram skattahækkunartillögum á orkufyrirtækin, sem síðar reyndar var sagt að væri bara skot út í bláinn og ekkert stæði á bak við það og það var allt saman dregið til baka. En það er einfaldlega alvarlegur hlutur að setja svona hluti fram. Fjárlagafrumvarpið er að sjálfsögðu lesið af hagsmunaaðilum, þetta er frumvarp sem kemur beint frá ríkisstjórninni og að sjálfsögðu er það lesið og þetta kemur mönnum þannig fyrir sjónir sem starfa í þessum geira að ríkisstjórnin ætli sér ekki að standa við gerða samninga. Það hefur ekki góð áhrif á það traust sem er nauðsynlegt að skapa m.a. til þess að laða að erlendar fjárfestingar. Þetta er gríðarlega alvarlegt atriði sem verður að kippa í lag. Sem betur fer hafa ekki allir misst trúna, enn er mikill áhugi hjá erlendum fjárfestum á að koma hingað til lands og taka þátt í endurreisn landsins, skapa tækifæri fyrir okkur og þau tækifæri verðum við að grípa með öllum tiltækum ráðum.

Orkan í iðrum jarðar er gríðarlega mikil og hér á landi eru margir hæfir vísindamenn sem eru í heimsklassa hvað varðar þau verkefni, hvergi í heiminum er til meiri þekking en einmitt hér á landi varðandi þessi mál. Þetta er einn af okkar helstu styrkleikum og þess vegna megum við ekki vera hrædd við að nota þessa styrkleika okkar. Að sjálfsögðu ber okkur að umgangast náttúruna af virðingu og fara yfir það, enda erum við með í gangi vinnu við rammaáætlun þar sem er ætlunin að leggja fram áætlun um hvar má virkja, hvar skal vernda og hvar má rannsaka. Við erum að sinna þeim málum, en það þarf líka að standa við ákvarðanir sem þar eru teknar og stuðla að því að við höfum getu til að lifa af landinu okkar og lifa með landinu okkar. Það má ekki vera þannig að hér megi ekkert hreyfa og hér megi ekkert gera vegna þess að það er einfaldlega pólitík sem ekki virkar.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið á það að sjálfsögðu að vera meginmarkmið í stjórnsýslunni að hún þvælist ekki fyrir þegar kemur að því að hrinda verkefnum af stað. Við höfum ekki efni á fleiri afgreiðslum eins og þeirri sem kísilverksmiðjan í Ölfusi varð fyrir. Það vekur hjá manni ákveðnar spurningar að enn hefur ekki fengist staðfest í umhverfisráðuneytinu aðalskipulag Flóahrepps, þar sem m.a. er fjallað um virkjanir í neðri hluta Þjórsár en líka fleiri atriði. Þar í sveit geta menn einfaldlega ekki framkvæmt vegna þess að hluti af sveitarfélaginu hefur aldrei verið settur í aðalskipulag, þar er hvorki hægt að gefa út byggingarleyfi né gera deiliskipulag fyrir byggð né nokkuð annað, vegna þess að aðalskipulagið hefur verið fast inni í umhverfisráðuneyti í marga mánuði. Ætli það séu ekki í dag, frú forseti, u.þ.b. 10 dagar síðan ég fékk svar hjá hæstv. umhverfisráðherra við þeirri spurningu minni hvenær til stæði að afgreiða það aðalskipulag í ráðuneytinu og svarið var að það væri alveg við það að gerast, það eru 10 dagar síðan og enn er ekkert að frétta. Sama er upp á teningnum varðandi aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps, þar er reyndar um einfaldara mál að tefla, þar er einfaldlega verið að breyta aðalskipulagi, en það skipulag er jafnframt fast í umhverfisráðuneytinu.

Það vekur athygli að í báðum þessum tilvikum eru virkjanir til umfjöllunar í aðalskipulagsbreytingunum og það vekur manni þær spurningar hvort það sé að þvælast fyrir í þeirri ákvarðanatöku sem umhverfisráðherra þarf að ráðast í. Þetta allt saman segir okkur að þetta eru viðkvæm mál, reglur þurfa að vera skýrar og það er öllum í hag að þeim reglum sé fylgt en þá þær þurfa náttúrlega að vera þannig að hægt sé að vinna eftir þeim. Það er ástæðan fyrir því að við höfum lagt það fram m.a. hér að ferlið við umhverfismatið verði skoðað.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minntist sérstaklega á þann kafla í þingsályktunartillögunni þar sem talað er um undanþágur á virðisaukaskatti vegna innflutts tölvubúnaðar fyrir gagnaver. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og rétt að við hugsum okkur hvaða fleiri hvatar það eru sem hægt er að leggja inn í slíka rammalöggjöf, þannig að hægt sé að skapa slíkar aðstæður hér að við séum ekki bara einn af vænlegum kostum á heimsvísu þegar verið er að horfa til staðsetningar á fyrirtækjum eins og gagnaverum o.s.frv., heldur að við séum sá álitlegasti. Við erum framarlega í flokki en til þess að vera fremst þurfum við að vera með skýrt umhverfi, við þurfum að vera með traust stjórnvöld sem standa við gerða samninga. Hér þarf að ríkja stöðugleiki og það þarf að vera algjörlega ljóst hvernig skattumhverfinu er háttað til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Nú ríður mikið á að stjórnvöld grípi þau tækifæri sem til staðar eru þannig að við náum að byggja upp enn og aftur öflugt og gott atvinnulíf og skapa störf fyrir það fólk sem því miður hefur misst vinnu sína. Ég hef fulla trú á því að þrátt fyrir þessa erfiðleika eigum við margar sterkar stoðir sem við skulum byggja á til framtíðar. Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð, við erum ung þjóð. Hér er hátt menntunarstig, við eigum mjög færa einstaklinga á ýmsum sviðum, m.a. í jarðhitanum og orkunýtingunni. Hér eru grunnstoðir samfélagsins sterkar. Hér er t.d. mikið af hreinu, fersku vatni, sem er auðlind sem við skulum ekki gleyma og við skulum ekki vanmeta hana. Við eigum enn sterkan sjávarútveg og um hann þarf að standa vörð í stað þess að ráðast gegn honum með hugmyndum um fyrningu o.s.frv. Stærsta skylda okkar hér er að vera ekki hrædd við tækifærin, horfa fram á veginn og gera umhverfið þannig úr garði að hingað vilji fólk koma, hingað sé sjálfsagt að leita ef menn vilja staðsetja orkufrekan iðnað og að við séum mest spennandi landið í þeirri samkeppni.