138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[20:44]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stöðu minni hluthafa. Meðflutningsmenn mínir eru allnokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar nefnd sérfróðra manna sem móti tillögur er hafi það að markmiði að styrkja stöðu minni hluthafa (minnihlutavernd). Nefndin skili áliti sínu fyrir árslok.“

Þingsályktunartillagan hefur verið flutt tvisvar sinnum áður, fyrst á 136. löggjafarþingi, en þá komst hún ekki á dagskrá til umræðu og síðar á 137. löggjafarþingi, en þá var hún ekki afgreidd og er þess vegna endurflutt að nýju. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þrátt fyrir að tillagan hafi ekki verið afgreidd á 137. löggjafarþingi höfðu verið lögð fram álit og hafði verið leitað eftir umsögnum frá fjöldamörgum aðilum. Þær umsagnir höfðu borist og voru allar ákaflega jákvæðar.

Þessi tillaga er flutt að mjög gefnu tilefni. Í greinargerðinni sem henni fylgir er vísað til þess mikla taps sem mjög margir einstaklingar urðu fyrir á haustdögum 2008. Þar er rakið að áætlað sé að 47.000 einstaklingar hafi tapað nærri því 130 milljörðum kr. á einni viku vegna hlutafjáreignar í bönkum sem nú er verðlaus. Til viðbótar þessu töpuðu um 1.400 lögaðilar nærri því 920 milljörðum kr. af sömu ástæðum og bak við þau félög eru mjög margir einstaklingar, bæði smáir sem og stærri hluthafar. Því er ljóst að margir einstaklingar hafa tapað mjög miklum upphæðum. Talið er að tap hlutabréfaeigenda vegna hruns bankanna þriggja miðað við gengið eins og það var 26. september hafi numið rúmlega 1.000 milljörðum kr., hér um bil einni landsframleiðslu. Það er athyglisvert að í hópi þeirra sem töpuðu umtalsverðu fé voru 11.000 einstaklingar 65 ára og eldri sem töpuðu að meðaltali 3 millj. kr. eða alls 30 milljörðum kr.

Til viðbótar við þetta má nefna að gríðarlega mikil lækkun hefur orðið á markaðsvirði ýmissa annarra fyrirtækja sem að hluta til a.m.k. má rekja til bankahrunsins og þeirra verðlækkana sem hafa orðið á hlutabréfum. Enn fremur má vekja athygli á því að margar þessar eignir höfðu líka lækkað umtalsvert árið fyrir hrun. Þó að þær tölur séu ekki handbærar hér er ljóst að mjög margir hafa orðið fyrir miklu tapi þó vitaskuld verði að bera þetta saman af einhverri sanngirni í eðlilegu samhengi. Margir höfðu vissulega fengið mikinn hagnað vegna mikillar hækkunar sem síðan gekk til baka en alla vega er ljóst að það hefur orðið gríðarlegt tap hjá mjög mörgum einstaklingum út af þessu máli.

Margir hafa tilhneigingu til að afgreiða málin þannig að um sé að ræða tap þeirra sem helst mega við því, útrásarvíkinga eða annarra slíkra sem menn hafa takmarkaða samúð með, en þá verður að vekja athygli á því að við erum að tala um tugi þúsunda einstaklinga, 47.000 einstaklingar eru nefndir til sögunnar í greinargerðinni. Ljóst er að á undanförnum árum hafði það færst í vöxt að fólk með lágar tekjur, meðaltekjur og enn fremur það sem hafði hærri tekjur var farið að nota hlutabréfaeign sem hluta af fjölþættu sparnaðarformi og það var mjög eðlilegt. Þetta var í samræmi við það sem gerðist erlendis og þetta var æskileg og góð þróun. Hins vegar voru margir, og þeirra á meðal sá sem hér stendur, sem vöktu athygli á því að staða hinni minni hluthafa, einstaklinganna, væri alls ekki sem skyldi, staða þeirra væri á margan hátt veik. Það væri ýmislegt sem gerði það að verkum að réttur þeirra væri fyrir borð borinn, möguleikar þeirra til að fylgjast með, möguleikar þeirra til að átta sig á þeirri þróun sem væri að verða í hlutafélögunum væri ekki til staðar og ef stórir hluthafar kysu gætu þeir beitt litlu hluthafana ofríki sem aftur á móti ylli því að þeir ættu erfiðara um vik með að verja sig. Þess vegna hafði ég um það forgöngu á sínum tíma á árinu 2004, að ég hygg, á 130. löggjafarþingi, að flytja tvö frumvörp sem lögð hafði verið mikil vinna við að undirbúa, sem höfðu það að markmiði að reyna að treysta stöðu minni hluthafa. Þetta var á sínum tíma mál sem vakti talsverða athygli.

Því miður var það svo með þetta mál eins og sum önnur að það náði ekki fram að ganga. Menn höfðu svona jákvæð orð um það en engu að síður var það þannig að þau tvö frumvörp sem höfðu það markmið að stuðla að sterkari stöðu minni hluthafa náðu hvorugt fram að ganga. Þó var það ekki þannig að neinir sérstakir aukvisar væru meðflutningsmenn mínir í því máli. Ég ætla að telja þá aðeins upp og vekja athygli á því. Það voru: Halldór Blöndal, þáverandi forseti Alþingis, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra, hv. þm. Hjálmar Árnason, þáverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, og loks hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, þáverandi og núverandi formaður Frjálslynda flokksins. Af þessu má ráða að það var gríðarlegur pólitískur vilji, þverpólitískur vilji, til þess að styðja við stöðu minni hluthafa og fyrir því voru þær ástæður sem ég nefndi. Bæði var það svo að mjög margir hluthafar, margir einstaklingar, sáu hag sínum vel borgið að reyna að taka þátt í fjölþættara sparnaðarformi. Þeir vildu líka taka þátt með óbeinum hætti í atvinnulífinu, kannski einstaklingar sem ekki kusu að vera beinir þátttakendur með því að vera stjórnendur eða hluthafar, meirihlutahluthafar í fyrirtækjum, heldur sáu þar möguleika á því að taka þátt með jákvæðum hætti í uppbyggingu atvinnulífsins, hafa kannski pínulítil áhrif á það hvernig atvinnulífið væri að þróast og kusu líka með þeim hætti að líta svo á að þeir væru með því að koma að með sitt eigið fjármagn inn í atvinnufyrirtækin og stuðla einnig að því að þetta yrði efnahagslega sterkara fyrirtæki.

Það er einmitt sérstaklega brýnt við núverandi aðstæður þegar við vitum að hlutabréfamarkaðurinn hefur beðið mikinn hnekki. Mjög margir einstaklingar hafa brennt sig á því að eiga hlutafé og margir einstaklingar eru núna mjög varkárir í meðferð síns fjár sem eðlilegt er svo sem, auðvitað eiga menn að vera varkárir á öllum stundum í þeim efnum. En við vitum líka að til þess að atvinnulífið geti vaxið þurfa menn að hafa ákveðinn vilja til áhættu og taka áhættu. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að búa lagaumhverfið þannig úr garði að það séu lög sem fólkið þekkir, treysti þeim leikreglum sem eru og treysti því að jafnvel þó það hafi ekki djúpa þekkingu á innviðum viðskiptalífsins og hafi kannski ekki mikla og yfirgripsmikla þekkingu á því hvað einstakar kennitölur í fyrirtækjarekstri þýði, þá telji fólk sig vera a.m.k. að því leytinu öruggt að leikreglurnar séu því í hag, leikreglurnar séu til þess fallnar að styðja við einmitt slíka einstaklinga sem ætlast ekki til þess að vera áhrifamenn í atvinnulífinu að öðru leyti en því að eiga þar dálítið hlutafé. Síðan hitt að vissulega geta líka verið tilvik í minni fyrirtækjum þar sem menn eru minni hluthafar, jafnvel þó þeir séu þátttakendur í atvinnulífinu með beinum hætti sem stjórnarmenn eða einhverjum öðrum hætti starfandi í atvinnulífinu eigandi þar dálítið hlutafé, hafa einhver áhrif en vera hins vegar í minnihlutastöðu. Allmörg dæmi eru um að slíkir einstaklingar hafi verið ofurliði bornir vegna þess að reglurnar sem eiga að verja þá eru ekki eins skýrar og nauðsynlegt er.

Á vissan hátt hefði verið freistandi að endurvinna þau frumvörp sem um er að ræða. Við vitum hins vegar að þessi mál eru býsna flókin og mjög margt hefur breyst á allra síðustu árum sem gefur okkur tilefni til að endurhugsa þessi mál og skoða þau mál í nýju ljósi. Þess vegna töldum við flutningsmenn að skynsamlegast væri og farsælast að hafa þennan háttinn á, flytja þingsályktunartillögu, vísa til tveggja frumvarpa sem almenn pólitísk samstaða væri um sem tóku með nokkrum sértækum hætti á tilteknum afmörkuðum þáttum, vísa til vísbendingar um að þar væri kannski einhver fyrirmynd sem mætti leita til en að öðru leyti fela þetta nefnd sérfróðra manna sem mótuðu um þetta mál tillögur.

Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að ég tel ekki ástæðu til að fara efnislega meira í gegnum tillöguna. Ég tel að málið sé af þeim toga að um það hljóti að geta myndast breið pólitísk samstaða. Ég get ekki ímyndað mér annað en menn sjái þýðingu þess í ljósi þeirra atburða sem hafa gerst á síðasta eina ári og rúmlega það, sjái þýðingu þess einmitt að koma til móts við þennan hóp og búa til, hvað á að segja, leikreglur sem geri það að verkum að fólk geti með sæmilegu öryggi, vitandi um það a.m.k. að leikreglurnar séu réttlátar, tekið þátt í atvinnulífinu. Allir vita auðvitað að því fylgir áhætta, það er ekki áhættulaust að fjárfesta í atvinnulífi, aldrei nokkurn tímann, það kennir reynslan okkur, en a.m.k. að fólk hafi þá fullvissu í huga sínum að leikreglurnar séu þannig að ekki sé verið að níðast á fólki í krafti þess að það hafi ekki aðgang að þekkingu eða vitneskju innan fyrirtækjanna og geti þess vegna ekki varið sig ef aðstæður breytast.

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu segja þetta í lokin. Málið hefur þá sérstöðu að nú hefur það verið rækilega unnið. Það hefur komið til nefndar. Nefndin hefur kallað eftir álitum. Álitin eru jákvæð. Við vitum líka að í þessum þingsal hefur á undanförnum vikum og í sumar verið mjög talað um að nú séu komin ný vinnubrögð, nýjar áherslur og það eigi einmitt að reyna að kappkosta að auka sjálfstæði þingsins og tryggja að mál af þessu tagi sem er þingmannamál, mál sem flutt er af almennum þingmönnum, stjórnarandstöðuþingmanni í þessu tilviki en byggir á frumvörpum sem höfðu breiðan pólitískan stuðning, að þingið sýni vilja sinn í verki með því að afgreiða það, sýni að það vilji á vissan hátt brjóta í blað og takast á við það að þingið hafi ákveðna forustu um breytingar á málum sem varða miklu við viðreisn efnahagslífsins, þó ég ætli ekki að segja að þetta sé eitt burðarmesta tillagan í þeim efnum, þá skiptir hún hins vegar miklu máli. Hún hefur þennan afmarkaða tilgang að byggja upp traust í þjóðfélaginu. Það er einmitt það sem við þurfum á að halda og það er einmitt það sem við höfum í málflutningi okkar, flestir þingmenn, verið að leggja áherslu á.