138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[20:57]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega góðar viðtökur. Ég tel ástæðu til að binda vonir við að málið kunni að fá góða niðurstöðu í ljósi þess að hv. þingmaður er formaður viðskiptanefndar og ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga einmitt á málum af þessu tagi sem snúast um, eins og ég sagði áðan, að byggja upp traust í þjóðfélaginu sem ég held að skipti svo gríðarlega miklu máli.

En af hverju var þetta mál ekki afgreitt? Ég ætla að reyna að vera eins hreinskilinn í þeim efnum og ég get. Ég held að þarna hafi bara ríkt gamla — ég vil ekki segja góða gamla — vonda tregðulögmálið. Þetta var þingmannamál. Það voru hins vegar mjög miklar breytingar að eiga sér stað, það skal viðurkennt, um regluumhverfi viðskiptalífsins. Það var svo sem verið að taka á ýmsum afmörkuðum þáttum sem sneru að vernd minni hluthafa. Þessi frumvörp gengu lengra. Þrátt fyrir að þau almennt talað fengju góðar viðtökur, og fengu til að mynda ótrúlega mikil viðbrögð í þjóðfélaginu miðað við mál af þessu tagi, þá nægði það því miður ekki til þess að málið fengi nægilegan stuðning í þinginu. Ég man t.d. ekki eftir því þegar málin voru rædd að nokkur, og þar á meðal ekki þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, hefði neitt við efnisatriði frumvarpsins að athuga, vísaði að vísu til þess, ég tek fram að ég var í stjórnarliðinu á þeim tíma, að verið væri að vinna að þeim málum með einhverjum hætti í ráðuneytinu, en taldi hins vegar að þess vegna væri ekki tilefni til þess út af fyrir sig að afgreiða málið. Ég veit ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi beinlínis lagst gegn því en ég held að þarna hafi því miður verið hið gamla tregðulögmál á ferðinni sem oft og tíðum hefur komið í veg fyrir slík mál.