138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[21:01]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrir góðar viðtökur. Það er aðeins ein pínulítil viðvörunarbjalla sem hringir núna vegna þess að þetta sem kom fram um að unnið sé að þessum málum með ýmsum frumvörpum minnir mig dálítið á gamla tíma. Þegar ég lagði fram þetta frumvarp var vísað til þess að kannski væri ekki endilega þörf á því að afgreiða þessi frumvörp vegna þess að ráðuneytið væri að vinna svo gott verk. Ég efast ekki um að það hafi verið gert þá og efast ekki um að verið sé að því núna.

Síðan vil ég segja að hv. þingmaður hefur gefið mér ástæðu til að verða dálítið forvitinn og spenntur að vita hvert framhaldið verður á frásögninni af því hvernig ég hef haft mikil áhrif á stjórnarstefnuna án þess að vita af því. Það kemur mér náttúrlega þægilega á óvart. Þetta er eins og að lesa fyrir mann spennandi kafla úr sögu og hætta svo í miðjum klíðum, en eina ráðið sem ég hef er að stytta mál mitt núna og bíða þá aðeins skemur eftir framhaldinu á frásögn hv. þingmanns.