138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[21:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér liggur fyrir er ein af þeim tillögum sem sjálfstæðismenn hafa teflt fram á Alþingi til að styrkja grunn efnahagsstarfseminnar og til að leggja sitt af mörkum til að flýta allri endurreisn íslensks efnahagslífs. Mikilvægur þáttur í því er einmitt að byggja aftur upp traust á íslensku efnahagslífi og byggja upp traust á hlutafélagafyrirkomulaginu á hlutabréfamarkaði þó að það muni alveg örugglega taka tíma. Það er nefnilega mjög mikilvægt fyrir hverja þjóð að öflugur hlutabréfamarkaður sé starfræktur til að tryggja að fyrirtæki hafi aðgengi að fjármunum og almenningur hafi tækifæri til að festa fé sitt í fyrirtækjarekstri. Það er mikil gæfa fyrir hverja þjóð ef það gengur vel af því að slíkt mun skapa betri lífsskilyrði fyrir allan almenning ef vel tekst til. En grundvöllur þess að vel takist til er að traust ríki um slíka starfsemi. Það skiptir miklu máli fyrir vernd minni hluthafa, hvort sem um er að ræða stór almenn fyrirtæki sem eru skráð á markaði eða minni fyrirtæki, fyrirtæki þar sem jafnvel eru fáir hluthafar, 3, 4, 5, 6 hluthafar. Sérstaklega við þær aðstæður skiptir staða minnihlutaeigenda máli. Og þegar kemur að nýsköpun í samfélagi okkar, stofnun fyrirtækja sem ráðast í nýsköpun, skiptir einmitt máli að þessir hlutir séu í lagi, menn geti treyst því að þeir geti farið inn í slík félög án þess að vera með ráðandi hlut og geti gengið að því sem vísu að geta náð hlutum sínum til baka og notið þeirra réttinda sem fylgja þeirri fjárfestingu sem viðkomandi aðilar hafa lagt í.

Varðandi þessi mál öll er auðvitað rétt að hafa í huga að á árinu 2004 skipaði viðskiptaráðherra nefnd sem ætlað var það hlutverk að fara yfir íslenskt viðskiptaumhverfi og koma fram með tillögur til að draga úr hringamyndun og til að bæta stjórnhætti íslenskra fyrirtækja, koma með tillögur að úrbótum. Formaður þeirrar nefndar var hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon. Sú nefnd skilaði áliti í september 2004 og meðal þess sem nefndin fjallaði sérstaklega um var vernd minni hluthafa í fyrirtækjum, hvað hægt væri að gera til að tryggja betur stöðu þessara hluthafa. Þar var m.a. lagt til, svo dæmi séu tekin, að settur yrði lágmarksfrestur hjá stjórn hlutafélags til að boða til hluthafafundar og leggja fram gögn, að sá frestur yrði lengdur, að upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar yrðu aðgengilegar hluthöfum fyrir hluthafafund, að skráðum félögum yrði skylt að gefa hluthöfum sínum kost á að greiða atkvæði bréflega með rafrænum hætti og að hlutafélögum og einkahlutafélögum yrði heimilt að halda rafræna hluthafafundi og stjórnarfundi, sem og að eiga rafræn samskipti við hluthafa sína o.s.frv. Síðan var þar heilmikið rætt um stöðu starfandi stjórnarformanna og ýmislegt annað. Þar komu einnig fram hugmyndir, og enn vitna ég í þetta álit, með leyfi forseta, um að stjórnum yrði gert „skylt að fá samþykki hluthafafundar á starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Mælt er með því að starfskjarastefnan verði leiðbeinandi fyrir stjórnir, en þeim verði skylt að greina frá því ef vikið er frá stefnunni og rökstyðja ástæður þess. Stefna varðandi kaupréttarsamninga skal þó vera bindandi fyrir stjórnir félaga“.

Rétt eins og ég nefndi áðan varðandi stjórnarformann hlutafélaga var lagt til að honum yrði „ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Stjórn félagsins getur þó falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina“.

Reyndar er rétt að taka fram að ekki var sátt um akkúrat þetta mál í nefndinni. Hún klofnaði í því. Sá sem hér stendur tók þátt í störfum nefndarinnar og þekkir því nokkuð til þessara mála og sér ástæðu til þess þó að nafn mitt sé ekki meðal þeirra sem flytja þessa tillögu að lýsa því hér yfir að ég styð heils hugar þá tillögu sem hér liggur frammi og hef um leið miklar væntingar til núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að hann taki vel á móti þessari hugmynd og að í þinginu náist fram góð sátt um þessi mál þannig að við getum á þessu þingi komið fram með tillögur í lagaformi sem efla og styðja við minni hluthafana í fyrirtækjunum og reyndar ýmsar aðrar þær úrbætur sem lagðar hafa verið til vegna þess að það er svo mikilvægt að við náum aftur að endurvinna traust á þessu rekstrarformi, hlutafélögunum, og ég tala nú ekki um ef við horfum til þess að eiga möguleika á því að endurreisa virkan hlutabréfamarkað. Það er mjög mikilvægt mál fyrir íslenska þjóð bæði í bráð og lengd.