138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[21:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stöðu minni hluthafa og hefur hún allnokkra flutningsmenn. Eins og fram hefur komið í umræðum um þetta mál í kvöld er gríðarlega mikilvægt að skoðað sé hvernig styrkja megi stöðu minni hluthafa og út á það gengur þetta mál allt saman. Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum þann tíma sem við höfum núna til að yfirfara allt regluverk okkar, ekki síst í ljósi þess hvað gerst hefur, til að skýra reglur og skerpa á eftirliti og læra eitthvað af öllu því sem hér hefur gerst. Það mikilvægasta sem fram undan er í þessum málaflokki varðandi hlutabréfamarkaðinn og hlutafélögin er raunar að skýra og skerpa á reglum og læra af reynslunni.

Við í þessum sal þurfum að einbeita okkur að því og leggja vinnu í það að skýra og skerpa framtíðarsýn okkar. Að mínu mati er því miður ekki talað nógu mikið um það hvert þessi þjóð skuli stefna og hvernig stjórnmálamenn á þingi sjá framtíð Íslands fyrir sér. Vel mætti taka slíka umræðu fyrir, frú forseti, og fara svolítið yfir það hvernig við sjáum umgjörðina hér á landi fyrir okkur á næstu árum, t.d. varðandi hlutabréfamarkaðinn. Þetta er verkefni sem við verðum að ráðast í og megum ekki tapa okkur eingöngu í því að fjalla um það sem miður fer. Að sjálfsögðu þurfum við að fjalla um mikilvæg mál sem snúa að hruninu sjálfu og þeirri stöðu sem við erum í en okkur ber jafnframt skylda til að leggja fram framtíðarsýn um hvert skuli stefna. Þannig náum við árangri og lærum af því efnahagshruni sem hér hefur orðið. Ég tel að hér á landi verði öflugur hlutabréfamarkaður og vona að við séum öll sammála um það en áður en svo verður þarf að sjálfsögðu að byggja upp traust, ákveðinn stöðugleiki þarf að nást upp og ekki síst þurfum við að endurskoða og fara yfir allt regluverkið og læra af reynslunni. Það eru mikilvægustu verkefnin á þessu sviði.

Að öðru leyti vil ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga hefur fengið góðar viðtökur í kvöld og ég vonast svo sannarlega til þess að hún fari fljótt og vel í gegnum þingið.