138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

friðlýsing Skjálfandafljóts.

44. mál
[21:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs fljótsins sunnan Mjóadalsár. Þar er gert ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að verja þetta svæði fyrir hvers konar röskun á náttúrulegum rennslisháttum fljótsins, varðveita landslag og því um líkt. Ég þakka 1. flutningsmanni þessarar tillögu hennar einlæga áhuga á því að varðveita þá einstæðu náttúrufegurð sem á þessu svæði er. Hér er rætt um náttúrufegurð þessa hluta Þingeyjarsýslna í ágætri greinargerð með þessari tillögu enda er sýslan vissulega afbragð annarra sýslna í landinu hvað varðar þessi atriði, ekkert skal undan dregið í því, og er jafnframt sögufrægt svæði eins og raunar er ítrekað í greinargerðinni sem hér liggur fyrir. Þar er m.a. minnt á þann fornfræga einstakling, Þorgeir Ljósvetningagoða, sem lifði og starfaði á þessu ágæta svæði og á heiður skilinn fyrir þaulsætni sína í búsetu þar.

Fyrir neðan Goðafossinn sem umræddur Þorgeir hafði mikinn áhuga á að umgangast og vann þar allnokkurt afrek sem menn munu minnast svo lengi sem Ísland byggist er mjög sérstakt náttúrufyrirbæri sem heitir Þingey. Því eru ágætlega gerð skil í þeirri greinargerð sem hér um ræðir og sögu þessa staðar sem Hið íslenska fornfélag í Þingeyjarsýslum, ef ég man nafnið rétt, hefur rannsakað. Ég vil gjarnan fara rétt með heitið á þessum ágæta félagsskap og finn nú í gögnunum að það heitir Hið þingeyska fornleifafélag. Það hefur unnið mjög merkt og gott starf, m.a. á þessu svæði. Ég hef notið þess að fara mikið um það, sérstaklega neðri hluta þess, og hefði kannski fremur búist við því að tillaga um friðlýsingu Skjálfandafljóts og vatnasviðs þess næði alveg niður að söndum ef menn horfðu til þeirra náttúruminja sem þar um ræðir. Sérstaklega á ég við Þingeyna og það umhverfi sem hún liggur í sem er afskaplega stórfenglegt og stórbrotið, svo ekki sé meira sagt.

Í þessari tillögu er nokkuð sem ég vil tengja andsvari hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar áðan sem dró ágætlega fram þá umræðu sem oft er um friðlýsingu náttúruminja eða -svæða. Í tillögunni kemur fram ákveðin afstaða, ég vil tæpast kalla það tvískinnung en gæti þó haft það orð um hana, um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til að framleiða orku. Slík nýting stuðlar að atvinnusköpun en þau áform hafa oftar en ekki vakið upp miklar deilur þar sem hver vísar á annan og hvor málsaðili sem er með og á móti slíkum framkvæmdum dregur fram sín rök. Til að sætta þau sjónarmið var hafist handa um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Unnið hefur verið mjög mikið starf allra hagsmunaaðila hvorum megin hryggjar sem þeir liggja, afspyrnumikilla virkjanasinna eða afspyrnumikilla náttúruverndarmanna. Þarna er vettvangur þar sem allir hagsmunaaðilar sem tengjast virkjanaáformum ná saman í því augnamiði að setja fram tillögur um nýtingu þeirra auðlinda sem búa í vatni og jarðvarma þessa lands. Þetta er gott og ég tel að við þurfum og eigum að vinna að verkum varðandi nýtingu þessara auðlinda í því ljósi að unnið er að framsetningu og staðfestingu áætlunar á þessu sviði.

Þá ber svo við að í umræðum um virkjanir, og nú er ég ekki endilega í þessu sambandi að ræða um virkjanir tengdar Skjálfandafljóti heldur bara í stóra samhenginu, draga andstæðingarnir það upp að rammaáætlunin sé í vinnslu og það þurfi að koma henni á áður en menn geti tekið afstöðu til þessa. Engu að síður fáum við á þeim sama tíma fram tillögur um að friðlýsa ákveðin tiltekin svæði til að verja það að ekki verði virkjað, hvorki vatn né jarðvarmi. Í þessari afstöðu finnst mér ákveðinn tvískinnungur og með sama hætti mætti vel halda fram að þeir sem hafa uppi áform um virkjanir sem ekki sér stað í rammaáætluninni reyni með sama hætti að komast á svig við rammaáætlun. Við eigum einfaldlega að hafa í okkur þá þolinmæði að bíða eftir því að við náum þokkalegri sátt um þá áætlun sem í smíðum er og ég hef miklar væntingar til þess.

Ekki skal ég gera lítið úr þeim röksemdum sem hér koma fram um að hægt sé að nýta þá auðlegð sem liggur í hinni stórbrotnu náttúru á þessu svæði til að búa þar til tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki til að byggja upp m.a. í ferðaþjónustu eins og hér er rætt um. Það er hins vegar umhugsunarefni í tengslum við þær röksemdir að flestir geta verið sammála um að ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum, sérstaklega í Mývatnssveitinni, hefur verið í mjög örri og markvissri uppbyggingu mörg undanfarin ár. Vöxtur í þeirri atvinnugrein á því svæði hefur raunar verið með ólíkindum. Engu að síður ber að hafa í huga að þrátt fyrir þennan vöxt í þessari grein, sem margir binda miklar vonir við, fækkar fólki í Skútustaðahreppi, ungu fólki sérstaklega. Þannig háttar til að fyrir örfáum árum voru þar t.d. á milli 70 og 80 börn á grunnskólaaldri, nú eru þar um 30 börn. Vöxturinn í þessari atvinnugrein skilar sér einhvern veginn ekki út í samfélagið þannig að það horfi til vaxtar í því sjálfu. Þegar íbúaþróunin er skoðuð og síðan tekjusamsetningin per íbúa eftir þessu kemur í ljós að þessi vöxtur skilar hvorki fólksfjölgun né því að samfélagið endurnýi sig. Og síðan hrapa tekjur per íbúa þannig að ljóst er að ekki dugar að horfa til þess eins að ferðaþjónustan stuðli að viðhaldi þeirra samfélaga sem höllum fæti standa en hyggi á nýjungar í atvinnuuppbyggingu.

Þetta vildi ég nefna í tengslum við þá greinargerð og þann rökstuðning sem fylgir þessari þingsályktunartillögu en legg áherslu á að mitt sjónarmið helgast af því að ég geri ríkar kröfur til þess að þegar við ræðum friðlýsingar og virkjanir hafi menn í huga þá vinnu sem í gangi er um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í landinu.

Hér eru uppi enn fremur, og ég vil nefna það undir lok ræðu minnar, hugmyndir um að tengja þessa friðlýsingu stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og stofnun frekari þjóðgarða sem tengjast svæðinu. Þá er ástæða til að staldra aðeins við það dæmi, sérstaklega í ljósi þess hvernig hefur gengið að koma Vatnajökulsþjóðgarði á. Það er alveg ljóst að áform um uppbyggingu hans og það hverju slík stofnun þjóðgarðs skilar inn á svæðið hafa dregist úr hömlu og það á tímum þegar við höfðum meira úr að spila en við gerum um þessar mundir. Ég hefði því álitið vænlegra að horfa frekar til þess að geta lagt mat á það hverju slík stofnun skilar inn í viðkomandi samfélag og hver ábati samfélagsins í heild af slíkri stofnun verður þannig að við fáum reynslu á það áður en við förum að stækka slíka garða enn frekar en orðið er því að tiltölulega ungt er það fyrirbæri sem Vatnajökulsþjóðgarður heitir.