138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

friðlýsing Skjálfandafljóts.

44. mál
[22:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda framlag hennar til þessarar umræðu sem lýtur að friðlýsingu náttúruminja og annars slíks. Ég vil minna á það sem ég sagði í ræðu minni áðan að ég tel með fullri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í sambandi við friðlýsingar að við verðum að koma þessu inn í þann farveg sem búið er að skapa. Það kemur fram áskorun í greinargerðinni þar sem flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að tímabært sé og þarft að Alþingi taki sjálft af skarið í þessu máli. Þetta eru tilmæli um að Alþingi taki ákvarðanir þvert á þá vinnu sem í gangi er sem er setning rammaáætlunar. Af hverju er ég svona harður á þessu? Ég leyfi mér að vitna til greinargerðarinnar þar sem segir — og þetta endurspeglar ástæðu þeirrar skoðunar minnar að ég er mjög harður á þessu varðandi rammaáætlunina — með leyfi forseta:

„Með friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts væri verið að takmarka afkomumöguleika fólks á svæðinu verulega.“

Þó að þessi friðlýsing taki ekki til alls vatnasviðs Skjálfandafljóts þá segir þetta allt sem segja þarf um áform um friðlýsingu. Af því að mælt var fyrir tillögu að nýrri náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2013 þar sem ný verkefni koma inn, þá ber enn og aftur að þeim sama brunni að okkur gengur illa að koma þessum áformum fram. Þau eru einfaldlega tímafrekari en vilji manna stendur til og undir það verðum við að beygja okkur. Nefna má t.d. að í náttúruverndaráætlun 2004–2008 voru uppi áform um að friðlýsa 13 svæði auk Vatnajökulsþjóðgarðs og hver er niðurstaðan? Jú, Vatnajökulsþjóðgarður er kominn en það eru ekki nema tvö af hinum 13 sem eru komin inn í þetta ferli og önnur eru í vinnslu sem getur lokið eftir einhver ár.