138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.

126. mál
[12:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hyggst á næstu dögum mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagi skattkerfisins. Frumvarp þar um er fullbúið og hefur verið afgreitt af þingflokkum stjórnarflokkanna beggja, það ég best veit. Markmið frumvarpsins eru að ná fram hagræðingu og endurskipulagningu á þessu sviði, tryggja áframhaldandi góðan árangur og skilvirkni kerfisins. Landið verður sameinað í eitt skattumdæmi og eitt stjórnsýslustig. Þannig falla niður staðbundin valdmörk og starfsemi hins sameinaða ríkisskattstjóraembættis sem tekur þá til landsins alls. Því verður skipað niður eftir atvikum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra hverju sinni að fengnum tillögum ríkisskattstjóra.

Í skýrslu þess starfshóps sem vann og mótaði tillögur, og skipaður var 6. júlí sl., var lagt til að starfrækt yrði ein skattstofa fyrir vestanvert landið, önnur á Norðurlandi, þriðja á Austurlandi og fjórða á Suðurlandi, auk þess sem í stað tveggja stórra skattstofa á höfuðborgarsvæðinu yrði starfrækt ein. Það felur í sér að sameinaðar verða skattstofurnar í Reykjavík og á Reykjanesi, sem starfræktar hafa verið, á næsta ári og verður það væntanlega stærsta einstaka breytingin sem þessum skipulagsbreytingum tengist. Það felur með öðrum orðum ekki sjálfkrafa í sér að starfsemi leggist af á einstökum stöðum heldur verður henni nú sinnt í einni sameinaðri stofnun. Ég hef lagt á það áherslu í allri þessari vinnu, og ég setti fram í bréfi til ríkisskattstjóra í gær þau tilmæli eða stjórnvaldsfyrirmæli, vitanlega háð því að frumvarpið verði að lögum, að gætt verði jafnvægis í skipulagi og dreifingu starfa milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar og að breytingar þær er frumvarpið feli í sér leiði hvergi til lakari þjónustu og leiði ekki til þess að störfum fækki hlutfallslega fremur á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er lögð á það áhersla að breytingarnar leiði ekki til einhliða uppsagna þeirra starfsmanna sem nú starfa á skattstofum landsins og að þannig verði þau störf áfram tryggð svo sem kostur er á meðan skipulagsbreytingarnar ganga yfir. Óhjákvæmilegt er hins vegar að skipulag og starfsemi þróist áfram í tímans rás og að skipulaginu verði þannig háttað að saman fari góð nýting fjármagns og skilvirk skattframkvæmd.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, hvort þetta geti falið í sér að auka verkefni skattstofa á landsbyggðinni, t.d. með því að færa til þeirra umsýslu og framkvæmd einstakra málaflokka á sviði skattamála, er svarið já. Það er nákvæmlega þannig sem þessi sérhæfing og endurskipulagning er hugsuð, að tiltekin viðfangsefni verði sérhæfð á tilteknum skrifstofum. Svæðisbundin skattumsýsla sem slík heyrir þá sögunni til en verkefnin breytast í takt við það. Í tillögunum er gert ráð fyrir m.a. að verkefni þessi verði öll endurskilgreind, að sérhæfing verði aukin. Þannig verði t.d. einstaklingsframtöl afgreidd á tveimur eða jafnvel bara einni skattstofu í stað níu skattstofa nú. Álagning og kæruafgreiðsla lögaðila verði á einni stórri skattstofu. Landbúnaðarframtöl verði á þeirri þriðju. Gert er ráð fyrir því að þjónustuver ríkisskattstjóra verði starfrækt á landsbyggðinni, þetta nýja embætti dreifi verkefnum á skattstofur eftir eðli þeirra og hagkvæmnissjónarmiðum og að ríkisskattstjóri geri um slíkt tillögur til fjármálaráðherra sem staðfestir þær. Þetta felur í sér mikla kosti, mikla möguleika á að sérhæfa og efla starfsemina á einstökum stöðum, þar á meðal og ekki síst á landsbyggðinni, og nýta til þess kosti fjarvinnslu. Við þekkjum það af góðri raun í þeim verkefnum sem vel hafa tekist á undanförnum árum að þar er víða í boði stöðugleiki, ódýrt húsnæði, vinnumarkaður sem er stöðugur og starfsmannavelta er minni en annars staðar. Það eru því ýmsir kostir sem blasa við í þessum efnum og beinast ekki síst að landsbyggðinni um leið og menn ná því fram að skapa þar fjölbreytni og störf fyrir menntað fólk. Ég kvíði því ekki, nema síður sé, að þessar breytingar verði neikvæðar í byggðalegu tilliti en það fer auðvitað allt eftir því með hvaða hugarfari þær eru framkvæmdar. Nú hefur ríkisskattstjóri, eins og áður sagði, fengið um það skýr stjórnvaldsfyrirmæli frá fjármálaráðherra að standa þannig að þessum breytingum. Ég vona að það rói þá hv. þingmenn sem hafa haft af því áhyggjur að þetta (Forseti hringir.) verði neikvætt í byggðalegu tilliti.