138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.

126. mál
[12:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og jafnframt fagna ég ummælum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann sagði að tryggt yrði byggðalegt sjónarmið í þessu sambandi þegar farið verður í endurskoðun á skattstofum. Ég tek líka heils hugar undir með hæstv. fjármálaráðherra um að það er mjög mikilvægt að menn fari þá leið að sérhæfa skattstofurnar og fela þeim ákveðin viðfangsefni sem þær sérhæfa sig í, sem gefur þá augaleið að eftirlit verður skilvirkara hjá skattstofunum. Ég held að það sé til mikilla hagsbóta.

Ég vil hins vegar líka árétta að það sem hefur oft gerst í svona aðgerðum þar sem sameina á að starfsemin er oft soguð suður á Stór-Reykjavíkursvæðið. Þess vegna ítreka ég að ég fagna sérstaklega ummælum hæstv. fjármálaráðherra um að vel verði staðið að verki og vandað til þess, einkum þegar menn gera það með byggðaleg sjónarmið í huga.