138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.

126. mál
[12:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem talað hafa í þessari umræðu og alveg sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans og það viðhorf sem kom greinilega fram í svari hans við fyrirspurn minni varðandi þessar skattstofur. Það kemur mér út af fyrir sig ekki á óvart að hæstv. fjármálaráðherra hafi skilning á þörfum landsbyggðarinnar. Hann hefur auðvitað mikla reynslu af stjórnmálastarfi sem þingmaður landsbyggðarkjördæmis svo að hann gerir sér mætavel grein fyrir þessu máli.

Ég vil síðan fyrir hégómleikann nefna að það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli hafa skrifað þetta ágæta bréf til skattstjóranna daginn áður en hann svaraði fyrirspurninni, til að ítreka þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur uppi.

Það sem ég held að skipti gríðarlega miklu máli er þetta: Við eigum ekki að standa gegn breytingum á skipulagi ef þær breytingar eru skynsamlegar og það eru heilmikil rök sem mæla með því að breyta skipulagi skattstofanna á þann veg frekar að dreifa verkefnunum en hafa það landshlutaskipt eins og er í dag. Það er hins vegar mjög þýðingarmikið að það sé gert af mikilli festu strax frá upphafi. Sporin hræða. Við sjáum því miður allt of oft dæmi um að þegar stofnanir eru sameinaðar verður í upphafi lítil breyting á landsbyggðinni en breytingin verður hins vegar meiri þegar fram í sækir. Þess vegna skiptir það svo miklu máli þegar þessi ákvörðun verður tekin að strax frá upphafi sé búið að ákveða hvar þessi einstöku verkefni verða sett niður til að tryggja að þeim verði haldið þar til framtíðar. Það er engin trygging fyrir því að verkefnin haldist á staðnum þótt þar séu lítil þjónustuver eða lítil útibú nema rétt á meðan þetta nýja skipulag er að festa rætur ef þjónustuverin eða útibúin eru án slíkra skilgreindra verkefna, stórra alvöruverkefna. Eftir það er á öllu von og það er ekki alltaf þannig að það sitji endilega fjármálaráðherra sem hefur sama byggðalega vinkilinn og hæstv. núverandi fjármálaráðherra. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli að strax í upphafi sé þannig gengið (Forseti hringir.) frá málinu að einstök verkefni séu fest við þjónustuverin, útibúin úti á landsbyggðinni.