138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.

126. mál
[12:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sá sem hér talar hefur dálitla reynslu af því að vera þingmaður landsbyggðarinnar, nánar tiltekið tæp 27 ár þannig að það ætti að hafa síast eitthvað inn í mig í þeim efnum á þeim langa tíma. Gott ef ég lagði ekki bara af stað frá byrjun í ferðalagið með það að markmiði m.a. að reyna að gera hinum dreifðu byggðum frekar gott en hitt.

Hinu verður ekki breytt að það er ætlun okkar að hagræða í þessum rekstri og endurskipuleggja hann og nýta til þess bæði tækni og aðra möguleika. Til þess eru ríkar ástæður. Að sjálfsögðu verða hendur ríkisskattstjóra eða forstöðumanna ekki almennt bundnar á alla enda og kanta fyrir fram í slíku verkefni. Það er þeirra að ná þessari endurskipulagningu og hagræðingu fram, að stýra henni, og þeir verða auðvitað að hafa til þess visst svigrúm. En það er ekkert sem mælir gegn því að tiltekin og skýr leiðsögn fylgi með af hálfu stjórnvalda, stjórnvaldsfyrirmæli getum við kallað það, og nú liggja þau fyrir. Nú hefur verið sent bréf til ríkisskattstjóra og ég geri ráð fyrir að eftir því verði unnið. Þangað til einhver kemur í ráðuneytið sem afturkallar það skulum við segja að leiðsögnin í málinu sé tiltölulega skýr. En það ber að standa þannig að þessu að ekki raskist jafnvægi á milli starfa í landsbyggð og á höfuðborgarsvæði.

Þessi vinna hefur verið höfð að leiðarljósi frá upphafi. Í þessu máli eins og kannski sumum fleirum, því miður, gaus upp einhver ótímabær umræða sem byggði ekki á staðreyndum mála og ýmsir kusu að gefa sér að fyrir fram að hér yrði um neikvæða breytingu að ræða. Menn leyfðu málinu ekki einu sinni að njóta vafans þangað til það kæmi fram og lægi fyrir í formi frumvarps á þingi og áformin væru skýr sem í kringum það eru. Nú er sú stund að renna upp og vonandi verða menn þá sáttari við þetta en kannski leit út fyrir í byrjun. Það hefur allan tímann verið ætlunin að reyna að standa þannig að þessu að bæði starfsfólkið sem vinnur þessa mikilvægu vinnu og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta gætu samt verið sáttir við.