138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

endurreisn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

120. mál
[12:21]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Tilefnið er alþekkt, þær miklu skuldbindingar sem féllu á sjóðinn vegna Icesave-reikninga Landsbankans og breyting sem gerð var síðastliðinn vetur á tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar þar sem m.a. voru fjárhæðarmörk fastsett við 50 þúsund evrur og tímafrestir til greiðslu úr tryggingakerfum styttir.

Þótt endanlegt frumvarp liggi ekki fyrir er það mjög langt komið. Betri tími mun gefast til að ræða efni þess þegar það hefur verið lagt fram. Ég get þó upplýst nú þegar að hugmyndir mínar ganga út á að skilja að fullu á milli skuldbindinga núverandi tryggingarsjóðs og þess sjóðs sem standa mun að baki innstæðum í framtíðinni. Þá er gripið til ýmissa annarra ráða til að auka öryggi innstæðna, flýta eins og kostur er sjóðssöfnun til að standa undir framtíðarskuldbindingum og fleira. Ætlunin er að iðgjöld til kerfisins taki meira mið af áhættu vegna hvers iðgjaldsgreiðanda en áður, að fyrr verði gripið til ráðstafana ef innlánsstofnun lendir í erfiðleikum og að greiðslufrestir verði styttir og eins að undanþágur frá innstæðutryggingu verði byggðar á raunhæfu hagsmunamati.

Hvað varðar lokaspurningu háttvirts þingmanns um það hvernig tryggja eigi hagsmuni þjóðarinnar í einkareknu bankakerfi svo að ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðar vegna tryggingarsjóðs í framtíðinni, þá er rétt að taka fram að ekki þarf endilega að vera orsakasamhengi á milli þess hvort bankakerfi er ríkisrekið eða einkarekið og hins hvort veita þurfi ríkisábyrgð vegna tryggingarsjóðs. Þess má bæði finna dæmi í sögunni að einkabankar og ríkisbankar fari í þrot þótt vissulega megi rekja núverandi vandræði okkar til banka sem voru í eigu og undir stjórn einkaaðila.

Það mikilvægasta í þessu samhengi er að reyna að stuðla að því að fjármálastofnanir — burt séð frá eignarhaldi — starfi í samræmi við skynsamleg lög og reglur og að stjórnendur þessara fyrirtækja kunni skil á þeim rekstri sem þeim hefur verið trúað fyrir. Lagaramminn þarf að vera traustur og eftirlit skilvirkt og öflugt. Að öllu þessu er nú unnið, m.a. af mínu ráðuneyti.

Er þannig verið að leggja lokahönd á frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í ráðuneytinu þar sem lögð verða til margvísleg ákvæði, t.d. um lánveitingar til aðila í hagsmunasambandi við viðkomandi fjármálafyrirtæki, þrengingar á hæfisskilyrðum stjórnenda, aukna ábyrgð innri endurskoðunardeilda og meðferð virkra eignarhluta, svo fátt eitt sé upp talið. Þá liggur fyrir að á næstunni verði gerðar ýmsar aðrar breytingar sem snúa að aðhaldi eftirlitsstofnana og þá fyrst og fremst Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, með innlánsstofnunum.

Ekki er ásættanlegt annað en að út úr þessari vinnu allri saman komi umgjörð um rekstur fjármálastofnana, þá sérstaklega innlánsstofnana, sem er eins traust og frekast er unnt.

Ekki verður boðið aftur upp í þann hrunadans sem hér var stiginn af útrásarbankakerfinu á undanförnum árum. Því er væntanlega þingheimur allur — og raunar þjóðin öll — sammála.