138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

endurreisn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

120. mál
[12:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég tel þessar spurningar mjög mikilvægar um það hvað sé verið að gera varðandi endurreisn tryggingarsjóðsins, sérstaklega spurningin um ríkisábyrgð á sjóðnum. Nú er það þannig að ég hef óskað eftir því sérstaklega í viðskiptanefnd að fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í Brussel komi á fund nefndarinnar þegar hann verður næst á landinu til að fara í gegnum þá vinnu sem er í gangi núna innan Evrópusambandsins varðandi innstæðutryggingarkerfið þar. Það er mjög mikil vinna og sú vinna byggist að mjög miklu leyti á athugasemdum sem hafa borist frá innstæðueigendum vegna hrunsins hér á Íslandi. Ég hef haft miklar áhyggjur af því hvað aðkoma okkar hér á Íslandi er lítil að þeirri miklu vinnu sem er í gangi í Evrópu, en við getum fastlega gert ráð fyrir að þar séu reglur sem við munum þurfa að taka upp, þar sem fjármálamarkaðir okkar falla nánast að öllu leyti undir EES-samninginn. (Forseti hringir.) Þannig að ég ítreka að miklu máli skiptir að við fylgjumst mjög vel (Forseti hringir.) með þeirri vinnu sem er í gangi í Evrópu.