138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

endurreisn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

120. mál
[12:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að beina þessari fyrirspurn til ráðherra, vegna þess að gríðarlega mikilvægt er að þetta verði upplýst og við séum öll vel áttuð á því hver staðan er varðandi tryggingarsjóðinn.

Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum tímann sem við höfum núna til að skerpa á reglum og laga þá umgjörð sem við búum fyrirtækjum og viðskiptalífinu. En það má aldrei gleymast í þessari umræðu, af því það örlaði aðeins á því í máli hæstv. ráðherra, það má aldrei gleyma því að við grundvölluðum alla okkar umgjörð á því regluverki sem við tókum upp í kjölfar EES-samningsins. Það má aldrei gleymast, það er rétt að halda því hér til haga, þetta er ekki eingöngu það að Íslendingar hafi misstigið sig á einhvern hátt, heldur var forsögnin sem við fengum frá hinni háu Evrópu kannski ekki alveg rétt.