138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

lánssamningar í erlendri mynt.

122. mál
[12:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, vil ég ítreka að skoðun ráðherra eða lögfræðilegra ráðgjafa hans skiptir ekki höfuðmáli í deilu sem þessari vegna þess að það liggur í eðli máls að úr henni verður ekki skorið nema fyrir dómstólum. Raunar væri það að mínu mati að ganga á svig við þrískiptingu ríkisvaldsins eða framkvæmdarvaldsins, þ.e. ráðherra í þessu tilfelli, að gefa einhvers konar fyrirmæli til dómstóla um það hver hann teldi að ætti að vera rétt niðurstaða í deilumáli sem þessu.

Að öðru leyti get ég þó tekið undir margt af því sem fram kom í máli hv. þingmanns um það að markaðssetning þessara lána, sérstaklega til einstaklinga en þó kannski að einhverju leyti einnig til fyrirtækja á undangengnum árum, var forkastanleg. Það er ekki hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu en að þessi skuldsetning heimila og fyrirtækja í erlendri mynt var algjörlega óverjandi og var vitaskuld ein af skýringunum á því að hið íslenska bankakerfi hrundi, eitt bankakerfa á Vesturlöndum, þegar hin alþjóðlega bankakreppa gekk yfir.

Að lokum vil ég þó benda á að hagsmunir þeirra, sérstaklega heimila, sem sitja nú uppi með erlend lán hafa að sjálfsögðu verið skoðaðir og gripið hefur verið til ráðstafana sem verja þá að ákveðnu marki, m.a. með þeirri greiðsluaðlögunarleið sem í reynd varpar áhættunni af því að laun mæld í erlendri mynt verði lág hér áfram yfir á lánastofnanir og tekur þá áhættu að mestu af lántakendum.