138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

áhrif fyrningar aflaheimilda.

123. mál
[12:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég vil bera hér upp þrjár spurningar um áhrif fyrningar aflaheimilda:

1. Hver er heildarupphæð skulda íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við innlendar bankastofnanir?

2. Hvað er áætlað að stór hluti þessara lána sé tryggður með veðum í aflaheimildum? — Ég ítreka að þegar ég tala um aflaheimildir, þá eru það náttúrlega skipin sem eru tengd viðkomandi aflaheimildum.

3. Hvaða áhrif má ætla að fyrning aflaheimilda hefði á verðmæti viðkomandi lánasafna og eiginfjárstöðu innlendra bankastofnana?

Ástæðan fyrir því að ég spyr þessara spurninga er að á fundi í viðskiptanefnd var nefndarmönnum bent á skaðann sem fyrirhuguð fyrningarleið ríkisstjórnarinnar gæti valdið bönkunum. Ef ákveðið verður að fyrna kvótann verða væntanlega lítil sem engin veð fyrir stórum hluta lána bankanna til sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta endurspeglast að sjálfsögðu í muninum á verðlagningu á bátum með eða án kvóta.

Í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og VG segir:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Í kjölfarið segir að áætlun um innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda taki gildi í upphafi næsta fiskveiðiárs, hinn 1. september 2010.

Miðað við það sem við fengum að heyra á þessum fundi sé ég ekki alveg hvernig þetta gengur upp. Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, sem er varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hafa staðfest opinberlega að þetta er ætlunin, að fyrna kvótann. Þetta hefur valdið miklu uppnámi hjá íbúum sjávarbyggða og stjórnendum og starfsmönnum sjávarútvegsfyrirtækja hringinn í kringum landið. Meira að segja sveitarfélög hafa verið að halda að sér höndum varðandi fjárfestingar þar sem fyrning kvóta kann að hafa mikil áhrif á tekjustofna þeirra.

Því miður virðist hafa verið mjög lítil umræða um hvaða áhrif fyrningarleiðin muni hafa á eigið fé bankanna. Ríkið er nú búið að samþykkja að setja um 200 milljarða kr. í bankana, auk þess sem áætlað er að Bankasýsla ríkisins muni hafa fleiri tugi milljarða til ráðstöfunar ef bankakerfið verður fyrir einhverjum skakkaföllum. Menn geta náttúrlega haft ólíkar skoðanir á fyrningu aflaheimilda og öllu því sem varðar kvótakerfið og hvort þetta muni auka sátt í kerfinu, en ég tel hins vegar mjög mikilvægt að menn geri sér fyllilega grein fyrir alvarleika málsins og að dæmið sé reiknað til enda. Þess vegna hef ég lagt þessar spurningar fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og vonast eftir að fá skýr svör.